Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Side 50
K o l b e i n n S o f f í u s o n
50 TMM 2008 · 4
Andra Snæ sé „greinilega stungin gagnrýni á neyslusamfélagið, sam-
hliða því að vera meðvituð um að vera afurð þess. Það sama má segja um
Bónusljóðin en þau má bæði skoða sem ádeilu á neyslusamfélagið og sem
ákveðna leið til að fella sig að siðum þess“.3 Hér á eftir ætla ég að fjalla
um þessa tvo heima Bónusljóða, bókmenntahefðina og ádeiluna á
neyslusamfélagið. Einnig mun ég ræða helstu stílbrögð höfundar í bók-
inni: vísanir, húmor og háð. Að lokum ætla ég að fjalla um útgáfu Bónus-
ljóða sem gjörning.
Ferðin um Bónus
Fyrsti hluti Bónusljóða heitir „Aldingarðurinn“. Þar erum við stödd í
ávaxtadeildinni í Bónus og ljóðmælandinn gengur um ávaxtadeildina
og þreifar „á / banana og ananas / radísum og rófum / agúrkum og
avokado“ (8). Þar er líka stödd kona: „Eva í aldindeildinni / freistast til
að bíta / í safaríkt epli / á sértilboði / / grunlaus / / um alsjáandi auga /
myndavélarinnar“ (10). Hér er Biblíuvísun og tenging við aldingarðinn
Eden. Hugmyndin um að öryggismyndavélin tákni hið alsjáandi auga
Guðs almáttugs er gott dæmi um hvernig höfundur setur aðstæður sem
við þekkjum úr Biblíunni, eða öðrum þekktum frásögum, fram á fynd-
inn máta sem gerir ljóðabókina að þeirri frumlegu og skemmtilegu lesn-
ingu sem hún er.
Fyrirsögn ljóðsins „United Fruit Company“ (10) vísar til eins stærsta
einokunarfyrirtækis hins vestræna heims sem tengja má við kúgun
Bandaríkjamanna á nágrönnum sínum í Mið- og Suður-Ameríku. Slík-
ar fyrirsagnir á ljóðunum koma oft fyrir og kannski er dýpri pæling á
bak við þessa fyrirsögn sem gæti tengst samspili ljóðabókarinnar við
hin kapítalísku stórveldi. Einnig væri hægt að álykta að líkt og United
Fruit Company kúgar þegna Gvatemala og hirðir alla banana þeirra á
kostakjörum, kúgi Guð almáttugur þegna sína í aldingarðinum, leyfi
þeim ekki að gæða sér á safaríkum ávöxtum skilningstrésins og reyni
síðan, eftir brottreksturinn úr aldingarðinum Eden, að hindra þau í að
svala sínum mannlegu þörfum með því að nota eins konar félagslegt
taumhald sem hann kallar erfðasyndina. Refsing þeirrar syndar er
nefnilega útskúfun úr Paradís og í Niflheim niður. Vísað er til synda-
fallsins á sniðugan hátt í næstsíðasta ljóði þessa hluta, þar tengir höf-
undur það við þekkt slúðurtímarit og snýr jafnframt út úr frægu ljóði
Steins Steinars: ,,Í draumi sérhvers manns er fall hans falið“ (23).