Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Síða 57
TMM 2008 · 4 57
Ólafur Stephensen
Hugenottar á Harmony Inn
Sannleikurinn er gjarnan afskaplega óábyggilegur
Það virtust allir klárir á því að íslendingurinn væri saklaus. Allir nema
kerlingin í næsta húsi. Það var hún sem fullyrti að Agnar Þórðarson,
rithöfundur, væri morðinginn sem löggan væri að leita að. Agnar var
látinn stilla sér upp við vegg á stöðinni ásamt átta öðrum dularfullum
gaurum, – og kerlingin sagðist vera alveg viss – þessi sköllótti væri
morðinginn.
Það var ekki framið morð á hverjum degi í New Haven, Connecticut,
á þeim tímum frekar en nú. Agnar var Fulbright styrkþegi við Yale
háskólann og þekktur maður í bænum. Allir sem eitthvað þekktu til
hans voru vissir um að Agnar væri saklaus, – allir nema kerlingin.
Það var einmitt á Yale sem sápudellan byrjaði. Stelpurnar í drama-
deildinni komu henni af stað. Þær skrifuðu skilaboð til vina sinna á
stóran spegil sem var fyrir ofan afgreiðsluborðið í matstofu stúdenta.
Þær skrifuðu skilaboðin með sápu. Það má segja að þetta sprell hafi
verið dæmigerður háskólabrandari í byrjun hippatímabilsins.
Brandarinn breiddi úr sér. Meira að segja stabílar hommakrár í
Greenwich Village, staðir eins og The Pink Mermaid á Broome Street,
þar sem Edward Albee borðaði morgunmat á næstum því hverjum
morgni, voru með spegil fyrir ofan barinn með vafasömum skilaboðum.
Það vissi enginn hverjum þau voru ætluð.
Á Pink Mermaid var lengi sápuáletrunin „Who is afraid of Virginia
Woolf,“ sem Albee taldi að táknaði hræðslu við að lifa lífinu án falskra
vona.
Áletrunin á spegilinn hafði auðsýnilega áhrif á leikskáldið. Albee
notaði hana ekki einungis sem titil á eitt kunnasta leikrit sitt heldur líka
í texta – „Truth and illusion. Who knows the difference …?“1
Síðustu sápudelluna, sem vakti verðuga athygli, mátti sjá í kvikmynd
Michelangelo Antonionis, „Blowup,“ þar sem leikkonan Vanessa Red-
grave skrifaði með sápu á stóran spegil. Smásaga jazzáhugamannsins og