Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Page 66
K r i s t í n S t e l l a L’o r a n g e
66 TMM 2008 · 4
Rauðhetta er söguhetjan og móðir hennar er andhetjan. Það er hægt að
setja móður Sjafnar inn í þessa kenningu. Þegar hún fer á fyllerístúra
skammast Sjöfn sín fyrir hana og verður hún þá vonda mamman í
augum hennar. Hún óttast mest að verða eins og móðirin, því móðirin
stendur fyrir allt það sem hún vill ekki verða og minningar um fortíð
með henni eru slæmar. Ástæðan fyrir því að Sjöfn vill komast til Parísar
er ekki einungis sú að hana langar til að verða listmálari, heldur þráir
hún að komast frá heimilinu, frá móðurinni og síðast en ekki síst frá
Brynjólfi. Hún vill flýja heimili sitt en hefur ekki að neinu að hverfa.
Einnig er hægt að skoða Ást á rauðu ljósi út frá gerð Grimmsbræðra
þar sem úlfurinn er utanaðkomandi ógn sem steðjar að heimilinu. Strax
í byrjun sögunnar kemur Brynjólfur óeðlilega fram við Sjöfn og það
kemur fljótlega í ljós hvað hann vill, eða eins og vinkona hennar segir:
„Horfir hann alltaf jafn girndarlega á þig? […] Heldurðu að ég hafi ekki
séð, hvernig hann mænir stundum á þig, eins og hann sé að berhátta þig
í huganum og ætli síðan með þig beint upp í ból.“17 Brynjólfur fær æ
augljósara hlutverk hins stóra, vonda úlfs, en hvernig úlfur er hann og
inn í hvaða sögu og túlkun passar hann? Ef hann er flagarinn eins og
Jack Zipes sér úlfinn í Rauðhettu, þá er hann vondi úlfurinn sem hefur
það eitt í huga að skaða Rauðhettu. Brynjólfur giftist þá móðurinni til
þess að vera nálægt Sjöfn og vinnur að því að tæla hana upp í rúm til sín
– sem tekst að lokum. Úlfurinn er orðinn hungraður og getur ekki beðið
lengur eftir ungu bráðinni. Sjöfn er að eldast, hún er trúlofuð og tíminn
að hlaupa burt frá Brynjólfi, hann vill ná henni meðan hún er enn fersk
og full af lífskrafti. Sá möguleiki er fyrir hendi að móðirin hafi verið
fyrir honum og úlfurinn/Brynjólfur ákveðið að ryðja henni úr vegi,
gleypa hana til að geta einbeitt sér þeirri næstu, þ.e. Rauðhettu/Sjöfn.
Út frá sögunni um Rauðhettu má segja að Sjöfn sé komin heim til
ömmu sinnar og úlfurinn bíði eftir henni uppi í rúmi. Gatan virðist
greið fyrir úlfinn. Sjöfn virðist ekki enn hafa áttað sig á aðstæðum en
eins og Rauðhettu grunar hana hvað sé í vændum. Líkt og Rauðhetta í
útgáfu Perraults og í alþýðusögunni fer Sjöfn í rúmið með úlfinum og er
það einnig talið gerast í útgáfu Grimmsbræðra, það er þegar úlfurinn
gleypir Rauðhettu. Sjöfn virðist sjá sjálfa sig í móðurinni og það hræðir
hana. Hún reynir að sanna fyrir sjálfri sér hver hún er með því að sofa
hjá Brynjólfi. Hún þarf að láta úlfinn gleypa sig til þess að endurfæðast
líkt og Rauðhetta hjá Grimmsbræðrum. Eins og komið hefur fram þá
deyr Rauðhetta ekki endanlega í þeirri gerð. Veiðimaðurinn hefur bæst
við, fulltrúi feðraveldisins, og hann bjargar bæði Rauðhettu og ömm-
unni. Sá sem gegnir hans hlutverki í sögunni er kærasti Sjafnar, Þorkell.