Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Page 75
D ó m k ó r i n n , M a r t e i n n o g s a m e i n i n g E v r ó p u
TMM 2008 · 4 75
stóð keik þegar reyknum létti. Húsin næst henni stóðu hins vegar í ljós-
um logum og loks barst eldurinn í kirkjuna. Þar hafði skömmu áður
verið komið fyrir miklu safni af kvikmyndafilmum en Dresden var höf-
uðborg þýskrar kvikmyndalistar á millistríðsárunum. Hitinn sem
sellólósinn í filmunum myndaði varð of mikill fyrir burðarvirki kirkj-
unnar. Skyndilega heyrðist brestur þegar hvelfingin með krossinum
ofan á hrundi, svo féllu veggirnir inn á við og allt hvarf í ryk- og reyk-
mökk. Loks var ekkert eftir af þessu meistaraverki barokktímans annað
en grjóthrúga og tvö veggbrot eins og fingur sem storkuðu almættinu.
Sakbitnir bandamenn
Loftárásirnar á Dresden hafa verið kallaðar eitthvert óskiljanlegasta
níðingsverk síðari heimsstyrjaldarinnar. Stríðinu var að ljúka, þessi
fagra menningarborg var laus við alla hernaðarlega þýðingu og þessutan
full af flóttafólki. Rétt eins og menningarperlum á borð við París, Prag
og Krakow hafði Dresden verið þyrmt við eyðileggingu stríðsins. Þá
ákvað herstjórn bandamanna að senda öflugan flugflota til Dresden þar
sem miðborgin var bókstaflega teppalögð af sprengjum. Eina skýringin
sem Bretar gáfu á loftárásunum var sú að með þeim væri hefnt árás
þýskra flugvéla á dómkirkjuna í Coventry haustið 1940.
Þeirri kenningu hefur hins vegar verið haldið á lofti, og lifir enn
meðal íbúa austan hins fallna járntjalds, að á þessum tíma hafi Stalín,
Churchill og Roosevelt verið búnir að skipta Evrópu eftirstríðsáranna á
milli sín en samkvæmt þeirri skiptingu lenti Dresden á yfirráðasvæði
þess fyrstnefnda. Hinum tveim hafi því verið slétt sama þótt austurhlut-
inn væri sviptur einum fegursta gimsteini sínum.
Hvað sem því líður þá var dómkirkjan í Coventry endurreist á árun-
um 1956–62 og meðal þeirra sem studdu þá framkvæmd voru Þjóðverj-
ar. Það liðu hins vegar hartnær 50 ár þar til byrjað var að róta í grjót-
hrúgunni á Neumarkt í Dresden. Hún fraus föst í kalda stríðinu og þótt
austur-þýsk stjórnvöld hafi gert margt vel í endurreisn borgarinnar létu
þau sér nægja að girða í kringum hrúguna sem áður var Frúarkirkjan og
nota hana sem minnismerki um viðurstyggð stríðsins. Árið 1993 var
kalda stríðið búið og Þýskaland orðið eitt. Þá var loksins hægt að ráðast
á hrúguna.