Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Síða 83
Æ v i r l j ó ð s k á l d a
TMM 2008 · 4 83
leg í draumi (sem hún lýsir sem endurtekinni martröð) sem hrekur hana
afturábak eftir bröttum stíg þar til hún endar í einhvers konar rústum
æskuheimilis síns og kerlingin segir: „Þarna skaltu dúsa, góða mín, og
láttu mig ekki sjá þig fyrr en þú hefur áttað þig á því sem þú gerðir“ (bls.
9). Sjálfsævisagnahöfundar ræða gjarnan í upphafi tilurð verksins, sem
oftar en ekki er þá einhvers konar afsökun fyrir sjálfsskoðuninni sem á
eftir fer. Þessi draumkerling er vissulega óvenjuleg gerð af slíkum inn-
gangi – hér er það ekki nostalgía, leit að glötuðum heimi eða þörfin fyrir
að reisa minnisvarða sem rekur höfundinn áfram, heldur einhvers
konar sektarkennd eða jafnvel nauðug fortíðarskoðun; höfundurinn
neyðist til að líta til baka til að halda áfram.
Svo eru ýmsar leiðir færar til að hefja slíka fortíðarskoðun, og eru
kannski þrjár helstar; þ.e. að rifja upp fyrstu minningu, að segja frá hve-
nær og hvar maður fæddist, eða að segja frá foreldrum sínum og rekja
sögu sína til þeirra og jafnvel lengra aftur í ættir. Ingibjörg sameinar í
raun allt þetta þrennt í öðrum kafla fyrri hlutans þegar hún lýsir eigin
fæðingu, ekki út frá eigin minni að sjálfsögðu heldur endurskapar hún
hana eins og hún muni hana – hún segist ‘heyra’ hana. Því næst rekur
hún sínar fyrstu minningar og lýsir svo foreldrum sínum og öfum og
ömmum. Úr verður sambland af staðreyndum; þessi fæddist þarna og
þetta ár og hét þetta – og svo sýn barnsins á þetta fólk, byggð á minn-
ingarbrotum og vel völdum smámyndum úr fortíð. Ímyndunaraflið,
minnið og sögulegar staðreyndir fléttast saman í þessum hluta í áhrifa-
mikla blöndu. Og það eru ekki síst slitrur úr endurminningum sem gefa
hér tóninn. Í stuttum kafla sem ber heitið ‘Minningar’ segir: „Sumar
minningar lofa góðu í byrjun en svo dettur úr þeim botninn og enginn
veit um hvað þær snerust, hvert tilefni þeirra var, hvaða erindi þær áttu“
(bls. 39). Æskusögurnar úr Reykjavík, Kópavogi og sveitardvöl sem
mynda ‘Reykjavík’, fyrsta hluta verksins, einkennast því annars vegar af
minningum sem sækja á en hafa ekki neina frásagnarlega framvindu,
aðeins tilfinningu eða andrúmsloft, og hins vegar minningum með
skýra frásagnarstefnu eins og þegar litli bróðir dettur í Tjörnina.
Eins og algengt er í sjálfsævisögum breytist tónninn þegar bernskan
er að baki. Lýsing á menntaskólaárum, ferðalögum, skólaárum í Moskvu
og lífinu í Havana eru skýrari og skilmerkilegri – hér koma bréfin til
sögunnar sem áður var minnst á og umhverfið er ekki lengur lítið port
á bak við hús í Reykjavík, heldur borgir, lönd og þjóðfélagsskipulag. Að
sama skapi verður textinn almennari, ef svo má segja, meira í frásagnar-
stíl blaðamannsins eða sagnfræðingsins, en í ljóðrænum stíl endur-
skapaðra minninga.