Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Qupperneq 96
96 TMM 2008 · 4
M e n n i n g a r v e t t va n g u r i n n
Silja Aðalsteinsdóttir
Á líðandi stund
Mér hefur alltaf fundist Grænland minna en Ísland – óljós hvít klessa fyrir
ofan stórt hvítdoppótt Ísland. En reyndar hef ég aldrei velt fyrir mér stærð-
armun landanna fyrr en í september síðastliðnum. Þá var haldin í bænum
Qaqortoq á suð-vestur Grænlandi, þar sem hét Eystribyggð til forna, ráðstefna
um byggð norrænna manna á Grænlandi á miðöldum. Ráðstefnugestir fóru
víða, á sjó og í lofti, og mér fannst við hafa farið yfir geysimikið svæði. En þegar
þetta svæði var skoðað á landakorti Grænlands var það bara eins og nett blý-
antstrik á því glannalega flæmi. Þá áttaði ég mig á því að á móti hundrað og
þrem þúsund ferkílómetrum Íslands þekur Grænland tvær milljónir og tvö
hundruð þúsund ferkílómetra. Það er tuttugu sinnum stærra! Og gersamlega
töfrandi.
Við flugum til Narssarssuaq, flugstöð með hóteli innst í Eiríksfirði (Tun-
ugdliarfik), og gistum þar fyrstu og síðustu nóttina. Þar hefur verið sett upp
talsvert safn um bandaríska herstöð og stóran herspítala sem þarna var á
stríðsárunum og fram á sjöunda áratuginn. Hafði til dæmis verið safnað
minningum Bandaríkjamanna sem þar höfðu dvalið, m.a. lækna og hjúkr-
unarfólks. Það vakti þá spurningu hvort ekki yrði slíkt safn þáttur í starfsem-
inni sem nú er í yfirgefnu herstöðinni á Miðnesheiði.
Brattahlíð, bær Eiríks rauða, er beint á móti Narssarssuaq, hinum megin við
fjörðinn, og þangað sigldum við strax nýlent. Ég hugsa að ég hafi ekki verið ein
um að taka tugi mynda af hafísnum sem sigldi hátíðlega allt í kringum bátinn.
Maður verður hálfvitlaus af að sjá svo óvænta sjón. Hlíðarnar upp af Narssars-
suaq voru alvaxnar birkikjarri sem skartaði brjálæðislegri litablöndu af grænu,
gulu, rauðu og brúnu. Í Brattahlíð er dálítið þorp þar sem einkum búa sauð-
fjárbændur og okkur var sagt að þeir væru uppi á fjalli að smala þegar við
spurðum hvers vegna ekki sæist neitt heimafólk á stjái. Þarna hefur verið endur-
gerður bær sem minnir á þjóðveldisaldarbæinn í Þjórsárdal og dálítið bænhús,
og var gaman að skoða hvort tveggja.
Daginn eftir sigldum við í fögru veðri um það bil hundrað kílómetra leið
niður eftir Eiríksfirði (allur er hann helmingi lengri en leiðin frá Reykjavík að
Gullfossi) og komum við í Igaliko þar sem biskupssetrið Garðar var á miðöld-
um. Þar eldaði brosmildur innfæddur kokkur handa okkur indæla kjötsúpu.
Síðan sigldum við yfir í Julianehåbsfjörð til Qaqortoq sem áður hét Julianehåb.