Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Page 102
102 TMM 2008 · 4
B ó k m e n n t i r
að taka afleggjara af sérstakri rósategund sem móðir hans þróaði og koma fyrir
á fallegum stað. Það var hún sem upphaflega sagði honum frá klaustrinu, og
ekki er ólíklegt að þannig telji sögumaður sig heiðra minningu móður sinnar;
en með gróðursetningu afleggjarans tengir hann einnig saman hið hversdags-
lega og hið ævintýralega, heimaslóðir og útlönd. En faðir hans hefur efasemd-
ir um þessa lífsstefnu sonar síns og þykir áætlunin um garðyrkjustörfin heldur
langsótt: „Það er ekki framtíð í rósum fyrir ungan karlmann í dag, Lobbi
minn,“ (34) segir hann og er þó ekki víst að hann viti að sonurinn hefur tekið
að sér vinnuna kauplaust.
Gróðurhúsið úti í garði kemur einnig við sögu meðan á kvöldmáltíðinni
stendur. Þremenningarnir skreppa þangað saman, faðirinn til að sækja gras-
lauk en Arnljótur útaf rósaafleggjurunum. Jósef hikar hins vegar við að stíga
inn fyrir dyrnar og virðist tengja gróðurhúsið við slæmar minningar. För Arn-
ljóts og föður hans út fyrir veggi heimilisins og inn í „náttúrulegt“ og e.t.v.
eilítið villt rými gróðurhússins opnar fyrir nýtt og þungvægt umræðuefni. Að
því er virðist upp úr þurru minnist sá síðarnefndi á að hann hefði viljað bjóða
„stúlkunni og barninu“ (8) til kvöldverðarins. Þar á hann við Önnu, kunn-
ingjastúlku Arnljóts og nöfnu móður hans, og stúlkubarn sem þau höfðu
nýverið eignast eftir samverustund um nótt í gróðurhúsinu. Arnljótur er ekki
hrifinn af þessari hugmynd og svarar föður sínum á þá leið að hann og stúlkan
hafi aldrei verið par þótt þau eigi barn saman. „Það var slys,“ segir hann,
„ávöxtur augnabliks gáleysis“ (8). Hann bætir við að honum líði „sérkennilega,
nú þegar ég er staddur, ef svo má segja, á vettvangi sjálfs getnaðarins, með aldr-
aðan föður minn mér við hlið og þroskaheftan tvíburabróður rétt fyrir utan
glerið“ (9). Það er því ekki nóg með að Arnljótur sé einkaerfingi að gróðurhús-
inu, þaðan sprettur einnig hans eigin „erfingi“ og „afleggjari“ og er rýmið
þannig enn frekar tengt móðurhlutverkinu sem vettvangur frjósemi og áfram-
haldandi lífs. Faðirinn maldar í móinn og bendir á að móðir Arnljóts hefði
vafalaust viljað bjóða „mæðgunum í síðasta kvöldverðinn“ (9), en Lobbi gefur
sig ekki. Hann er í sama og engu sambandi við barnsmóður sína og einn af
kostum ferðalagsins virðist vera að það fjarlægi hann frá flækjum einkalífs-
ins.
Full ástæða er til að staldra við orðalagið sem notað er um kvöldverðinn.
Vissulega mun verða hlé á samverustundum feðganna en þessi hefðbundni
aðdragandi langrar utanlandsreisu, fjölskyldumáltíðin, verðskuldar við fyrstu
sýn vart nafnbót með jafn þungum trúarlegum skírskotunum og „síðasti
kvöldverðurinn“. Það vekur því athygli þegar pabbi Arnljóts endurtekur lýs-
ingu sögumanns í upphafi með þessum orðum. Fjölmargir þættir eru á sveimi
í skírskotunarkerfi hins sögufræga kvöldverðar og ekki nema von að lesandi
skimi í kringum sig í textanum til að sjá hvort greina megi hliðstæður. Þannig
má t.d. túlka þá byrði sem nýtilkomið föðurhlutverkið virðist vera í lífi Arn-
ljóts sem „krossinn“ sem honum er skyndilega ætlað að bera, og hægt er að sjá
ferðalagið sem flóttatilraun. Er Lobbi þá að svíkja nýfædda dóttur sína, eða
sjálfan sig?