Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Page 103
TMM 2008 · 4 103
B ó k m e n n t i r
Málin æxlast síðan heldur óheppilega í upphafi ferðalags og Arnljótur verð-
ur helsjúkur um borð í flugvélinni. Hann er lagður inn á spítala við lendingu,
sannfærður um að hans hinsta stund sé upprunnin. Þegar hann heldur ferð
sinni áfram nokkrum dögum síðar, botnlanga léttari, er hann sannarlega ris-
inn upp (af sjúkrabeðinu), endurnýjaður og endurfæddur, meðvitaður um
eigin líkama eins og óvænta gjöf. Reyndar má sjá strax í upphafi bókar, þar sem
við fylgjumst með þríeykinu úti í náttmyrkrinu í gróðurhúsinu – föðurnum,
sem er rafvirki og hleypir þannig ljósi inn í heiminn, syninum, sem er ráð-
villtur um hlutverk sitt, og bróðurnum sem er hlekkjaður af sínum sérstaka
heilaga anda, og e.t.v. dálítið ógreinilegur hinum megin við rúðuna og handan
við ljósið – að Auður hikar ekki við að tefla fram djörfum trúarlegum hlið-
stæðum.
Í raun verður aldrei fyllilega skilið á milli helgitexta og bókmennta, og engin
orðræðuhefð er vestrænum bókmenntum jafn nákomin og táknheimur
kristninnar. Hér mætti líka bæta við að það voru kirkjufeðurnir sem öðrum
fremur kenndu okkur að túlka bókmenntir; það voru textaskýringarnar sem
búnar voru til í klaustrum á miðöldum sem leystu úr læðingi þá ofgnótt merk-
ingar sem býr í tungumálinu. Í leiðinni var skapað táknkerfi sem hefur reynst
rithöfundum rík uppspretta æ síðan, og eftir því sem lengra dregur í Afleggj-
aranum verður sífellt skýrara að höfundur vinnur náið með trúarlegan tákn-
og hugmyndaheim. Í raun breiðir net trúarlegra skírskotana úr sér yfir frá-
sögnina.
En þegar búið er að ræsa aldagamalt kerfi útsjónarsamra dulspekinga, líkt
og gamlan skrjóð sem geymdur hefur verið undir dúk frá því við munum eftir
okkur, verður að fara varlega, um er að ræða farartæki sem á ekki nema tak-
markað erindi á göturnar í óbreyttri mynd. Höfundur tekur með öðrum
orðum áhættu, og leggur mikið undir. Spurningar vakna um einlægni og fjar-
lægð, boðskap og afstöðu; hver er staða hins guðlega í nútímanum og hvernig
nálgast höfundur þá staðreynd að orðræða trúarbragðanna hefur verið geng-
isfelld og dregin í efa? Hvert er hlutverk trúarinnar á tíma tæknivísinda?
En lesandi þarf einnig að gæta sín. Hinn kristni táknheimur er svo þéttrið-
inn, svo óbærilega þungur að allt annað getur horfið í skuggann af honum;
áhætta lesanda felst í einstrengingslegum og snauðum allegórískum lestri.
Þannig er hægt að ímynda sér ýmsar aðrar leiðir til að púsla saman krosstákn-
inu, upprisunni og svikaminninu en þá sem valin var hér að ofan. Þar kemur
að mikilvægum þætti verksins, einum helsta styrk þess, en það er andrýmið
sem textinn býr til fyrir lesanda til að vega og meta, jafnvel hafna, trúarlegum
tilvísunum. Sá merkingarleikur sem verkið býður lesanda þátttöku í er lipur og
vel útfærður. Gott dæmi um það er dánarstund Önnu, móður sögumanns, en
fram kemur að hún hringdi úr farsíma í son sinn meðan hún beið slösuð eftir
að vera skorin úr bílflakinu: „hún talaði um ljósið, já um ljósið“ (69), hugsar
sögumaður og furðar sig á því, vegna þess að ekki var sólskin þennan dag, það
var dimmt yfir og rigning. Þegar haft er í huga að birta og ljós eru ítrekað notuð
í bókinni til að gefa í skyn nærveru hins upphafna og guðlega gæti einhverjum