Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Blaðsíða 105
TMM 2008 · 4 105
B ó k m e n n t i r
ólík landamæri; skógar og vegir og gistiheimili renna saman í móðukennda
einingu þar sem fólk kemur aldrei fram undir nafni, vísað er til þess eftir kyni,
aldri og hlutverki.
Landrými verksins stendur með öðrum orðum á draumkenndan hátt fyrir
meginland Evrópu og það er ekki að furða að Arnljótur villist á köflum. Þegar
hann um dimma nótt kemur að gistiheimili í skóginum þar sem uppstoppuð
dýr skreyta veggi kann lesandi jafnvel að tengja hrakfarir hans við annan píla-
grím sem í upphafi mikils trúarlegs söguljóðs villist um myrkan skóg og mætir
þar hættulegum skepnum. Andrúmsloftið er þó jafnan góðlegt, fólk er hjálp-
samt og Arnljótur finnur að lokum sitt fjallaþorp: „Gul þokuslæða sker klaust-
urbygginguna í tvennt, ég fæ ekki betur séð en að hún sé laus frá jarðneskri
undirstöðu sinni“ (121), en veruleikablær frásagnarinnar styrkist ekki beinlín-
is við lýsingu sem þessa.
Arnljótur er kominn á leiðarenda og vel er tekið á móti honum, hann hittir
séra Tómas, munk, málasnilling og kvikmyndaáhugamann, sem er milliliður
hans við klaustrið. Hér er sem ákveðin kaflaskipti eigi sér stað, óvissuástandi
og ójafnvægi er skipt út fyrir staðbundna rósemd þorpsins og garðsins, Hins
stórkostlega garðs himneskra rósa eins og hann nefnist.
Lesendur kynnast lífi munkanna ekki svo nokkru nemi, þó kemur í ljós að
þeir hafa takmarkaðan áhuga á garðinum, sumum er meira að segja meinilla
við hann, og sá sem haft hefur umsjón með honum, séra Matthías, er löngu
kominn af besta aldri. Enda reynist rósagarðurinn vera í mikilli niðurníðslu,
það er eins og hann hafi gleymst í nútímanum. Sama má reyndar segja um
þorpið sjálft. Ekki er nóg með að það tilheyri öðru tímabelti, það virðist hrein-
lega tilheyra öðrum tíma; tölvur, farsímar, internetið og önnur tæknileg þæg-
indi tuttugustu og fyrstu aldarinnar eru fjarverandi. Efri mörk tæknivæðingar
þorpsins er símaklefi á götuhorni, og séra Tómas safnar kvikmyndum á mynd-
bandsspólum en lætur mynddiskabyltinguna ekki trufla sig. Hér virðist „allt
[vera] þúsund ára nema fólkið“ (121) eins og sögumaður bendir á.
Eitt fyrsta verk Arnljóts er að kynna munkana fyrir rósategundinni sem
hann kom með frá Íslandi, og þótt greina megi óteljandi tegundir af rósum í
garðinum eru allir sammála um að slík rósategund hafi ekki sést þar fyrr. Eitt
af því sem vekur athygli lesanda, þótt sögumaður hafi ekki nema óbeint orð á
því, er að sérstök lögun rósarinnar virðist ríma við skipulag garðsins sjálfs (137
og 283); þetta er birtingarmynd þess sem kenna mætti við forlagahyggju í sög-
unni. Það er eins og æðri máttarvöld hafi fyrirskipað samslátt milli hins
stærsta og hins smæsta, samslátt sem er handan bæði tíma og rökvísi; í afleggj-
aranum er sjálfan garðinn að finna, og öfugt. Þetta tengist sögustreng sem
gerir vart við sig strax í upphafi þegar Arnljótur fjallar um ólík lífsviðhorf sín
og föður síns. Í huga sögumanns er lífið tilviljunum undirorpið, atburðir gerast
án ástæðu; Þórir er hins vegar á þeirri skoðun að tilviljanir séu ekki til. Fyrir
föður Arnljóts loðir heimurinn saman á tölum, tilviljanir eru hluti af flóknu
kerfi. Því til staðfestingar nefnir Þórir að afmælisdag eiginkonunnar, Önnu,
fæðingardag sonardótturinnar Flóru Sólar og dánardag Önnu beri upp á sama