Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Blaðsíða 107
TMM 2008 · 4 107
B ó k m e n n t i r
hlýjar og fallegar, smáatriði eru látin segja mikla sögu og hér kynnist lesandi
nýrri hlið á sögumanni, hinni sífelldu leit virðist lokið, óreiðuöldurnar hefur
lægt, friðurinn sem lesandi ímyndar sér að hafi verið yfir Arnljóti í gróðurhús-
inu meðan allt lék í lyndi hefur fundist á nýjan leik.
Það er í barninu sem merkingarsviðin tvö sem minnst var á hér að framan,
hið trúarlega og hið veraldlega, renna fumlaust saman. Kosmískur samhljóm-
ur ekki ólíkur þeim sem var á milli rósaafleggjarans frá Íslandi og hins himn-
eska rósagarðs ríkir milli Flóru Sólar og myndar í kirkju af Jesúbarninu. Vís-
bendingar koma fram um yfirnáttúruleg eigindi barnsins og kraftaverkin sem
eiga sér stað í þroska hennar breiða úr sér og birtast sem lækningarmáttur, bæj-
arbúar taka að hópast að feðginunum og af barninu stafar jafnan ókennilegri
birtu. Hvað er hér á ferðinni? Er frásögnin orðin að kraftaverkasögu? Express-
jónísk birtingarmynd á „kraftaverkinu“ sem býr í hverju nýju lífi, því eina
framhaldslífi sem manninum býðst? Ekki er nauðsynlegt að skera úr um það
með afgerandi hætti. Eins og áður hefur verið bent á býður skáldsagan upp á
frjósama spennu milli hins trúarlega og hins veraldlega. Hins vegar er rétt að
leggja áherslu á að vegferð sögumanns í Afleggjaranum er prýðilegt dæmi um
mörg helstu frásagnareinkenni þroskasögunnar svokölluðu, Bildungsroman,
sem jafnan lýsir ferðalagi sem öðru fremur felst í aðlögun að samfélagslegum
gildum. Vissulega er hægt að halda því fram að Arnljótur „finni“ sjálfan sig í
framrás verksins, og sú ábyrgð sem hann axlar undir lokin þegar Anna yfir-
gefur feðginin samræmist ágætlega „fjölskyldugildum“ hinnar hefðbundnu
þroskasögu, þó að kynhlutverkunum sé víxlað. En eins og titillinn gefur til
kynna er Afleggjarinn einnig þroskasaga á dýpri og óræðari hátt; hún fjallar
bókstaflega um það hvernig lífið vex og dafnar, innan og utan gróðurhúsa.
Hún fjallar um upphaf og endalok, líf og dauða, og hið hversdagslega og lík-
amlega ævintýri sem liggur þar á milli. Þetta gerir skáldsagan með hljóðlátri
ljóðrænu og yfirvegun.
Dagný Kristjánsdóttir
Á drauga- og sagnaslóð
Kristín Helga Gunnarsdóttir: Draugaslóð. Mál og menning 2007.
Draugaslóð (2007) eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur segir frá Eyvindi Þóru-
syni, þrettán ára strák, sem elst upp hjá ömmu sinni Hildiríði, kallaðri Hildu
smur af því að hún er bifreiðaviðgerðarmaður auk þess að vera saumakona og
myndlistarmaður. Mamma Eyvindar er við listnám á Ítalíu, faðirinn ítalskur
sjóliði sem engar sögur fara af. Í rás sögunnar kollvarpast tilvera Eyvindar.