Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Page 109
TMM 2008 · 4 109
B ó k m e n n t i r
köflum segir frá hrakningum bræðranna í stórhríðinni þegar þeir eru búnir að
missa hesta og áttir og litli drengurinn búinn að týna bakpoka með nestinu
þeirra. Þeir leita skjóls í gjótu og eldri bróðirinn reynir að hugga og styðja þann
yngri en báðir vita þeir að dauðinn fer að. Þetta er svo fallega skrifaður kafli að
hvað eftir annað stóð ég mig að því að hugsa til Bræðranna Ljónshjarta og
Astrid Lindgren þegar ég las hann. Yfir honum ríkir ró, blíða, fegurð og sátt
við hið óumflýjanlega.
Afstaða Eyvindar Þórusonar til bræðranna skosku einkennist fyrst af
greinilegri samsömun við þá, þeir eru orðnir útilegumenn eins og hann
dreymir um að vera og hann segir við alla að hann sé viss um að þeir séu lif-
andi, þeir hafi bjargað sér einhvern veginn. Hann virðist í raun trúa því að þeir
lifi núna eins og Róbinson Krúsó á landsins gæðum, fiski og fugli á fjöllunum.
Eftir að hann og móðir hans hafa búið um sig á Hveravöllum og eftir að
Eyvindur kynnist öræfunum af eigin raun breytist afstaða hans smám saman.
Án þess að það sé sagt berum orðum skilur hann að leitarmenn leita ekki
drengjanna heldur líka þeirra. Náttúran er veigamikill hluti af þeim takmörk-
unum sem mönnunum eru settar. En eitt er að vita það, annað að skilja.
„Mentor“ Eyvindar á þessari þroskabraut er afi hans sem vitjar hans í
draumum og leiðir hann með vísbendingum að staðnum þar sem lík bræðr-
anna eru. Hinn látni afi er föðurstaðgengill fyrir Eyvind, eða kannski er það
amman Hilda sem leikur það hlutverk gegnum afann. Fyrir hans/þeirra tilstilli
breytist staða Eyvindar frá að finnast hann vera eins og gamall sófi sem þær
amma hans og mamma geta skákað til og frá í að vera lykilmaður í því að finna
bræðurna og leysa gátuna. Og það er fleira sem Eyvindur hefur skilið í rás sög-
unnar, trúin og vonin hafa líka leyst kærleikann úr læðingi svo að hann getur
tekið móður sína í sátt og fyrirgefið henni fyrir að hafa yfirgefið sig og afhent
ömmunni móðurhlutverk sitt og -skyldur. Eyvindur skilur að við höfum ekki
ótakmarkaðan tíma til að erfa misgjörðir hvert við annað heldur takmarkaðan
tíma til þess að fyrirgefa og elska. Þegar Eyvindur fer með leiðangursmenn til
að sækja lík bræðranna kallar hann Þóru „mömmu“ í fyrsta sinn.
Dauðinn
Kynlíf og kynverund eru orðin hversdagslegt umræðuefni í unglingabókum, en
menn halda áfram að veigra sér við því að tala um dauðann. Það er ekki gott því
að börn og unglingar hugsa mikið um dauða, missi og sorg. Ekki minnst á
krepputímum. Ég vil í því sambandi minna á bráðgóða grein Silju Aðalsteins-
dóttur um „Trú og siðferði í íslenskum barnabókum“ (Raddir barnabókanna,
1999) þar sem hún notar kenningar Piaget um siðferðisþroska barna. Silja býr til
fimm spurningar byggðar á þessum hugmyndum og þær eru eftirfarandi: 1. Á
hvaða siðferðisstigi stendur söguhetja? 2. Hvaðan kemur hið illa í sögunni? Hvers
eðlis er það og hvernig er því útrýmt. 3) Er trú á æðri mátt í sögunni? 4) Af hvaða
tagi er þjáningin í sögunni? Hvaðan kemur hún, hvað lærir fólk af henni til góðs
eða ills? 5) Er lausn siðferðisvanda sögunnar hafin yfir mannleg takmörk?