Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Síða 110
110 TMM 2008 · 4
B ó k m e n n t i r
Séu þessar spurningar bornar upp við textann Draugaslóð má sjá að í upp-
hafi bókar stendur Eyvindur siðferðilega á mörkum annars siðferðisstigs eða
„samvinnu- og jafnaðarstigs“ og þess þriðja eða mats á siðferðilegu réttmæti
hverrar ákvörðunar og ábyrgð einstaklingsins á henni. Í rás sögunnar stígur
hann alveg yfir á þriðja stigið. Hið illa kemur ekki inn í söguna með þeim
fjölmörgu vættum og verum sem byggja bæði byggðir og óbyggðir heldur
kemur hið illa inn í bókina í hörku, hégómagirnd og fordómum fólks. Því er
útrýmt bæði með aukinni upplýsingu og dýrkeyptri reynslu í bókinni. Hún
er þrungin af trú á hið yfirnáttúrlega en að mínu viti er sú trú endanlega
tengd manninum, túlkunum hans og siðferðilegum viðmiðum en ekki einu
almætti sem allt hverfi til. Það er mikil þjáning í bókinni í lýsingunni á
dauða bræðranna og sorg fjölskyldunnar sem snertir alla. Það er engin heift
bundin slysinu eða ásakanir, aðeins sorg. Lausnin á siðferðisvanda sögunnar
er ekki hafin yfir mannleg takmörk en ég gæti ímyndað mér að bókin gæti
skapað miklar umræður meðal unglinga um það hver „siðferðisvandi“ bók-
arinnar sé.
Speglanir
Draugaslóð er mikill speglasalur þar sem sagan af skosku bræðrunum endur-
speglar söguna hörmulegu af Reynistaðarbræðrum sem fórust með fé sínu og
fylgdarmönnum á Kili árið 1780. Hinn sérkennilegi „vinnumaður“ þeirra
mæðgina á Hveravöllum, ruslakarlinn og hálftröllið skemmtilega, hann
Nökkvi, segir Eyvindi söguna af Reynistaðarbræðrum og bendir sjálfur á lík-
indin milli þeirrar sögu og sögu McReynolds bræðra: „Jæja, bara nafnið finnst
mér nokkuð hljómsvipað, sagði Nökkvi næstum reiðilega. Svo ekki sé minnst
á aldur drengjanna. Og í báðum tilfellum voru bræður sendir til nokkurs konar
manndómsvígslu af feðrum sínum. Og hvað með litlu drengina, Edgar og
Einar? Ellefu ára báðir tveir. Hvorugur vildi fara í þennan leiðangur.“ (129) Og
enn mætti bæta við bókmenntaskýringar Nökkva að eldri bræðurnir heita
Bjarni og Brian og metnaðarfullir, harðir feður þeirra heita Halldór og Harold,
fylgdarmennirnir heita allir Jón o.s.frv.
Afstaðan til sögu bræðraparanna tveggja verður uppistaðan í þroskasögu
Eyvindar sem jafnframt lærir að skilja og meta móður sína að verðleikum. Um
leið losnar hann út úr þeirri afneitun sem hefur einkennt samband hans við
hana og getur stigið skrefið inn í heim hinna fullorðnu.
Draugaslóð er metaskáldsaga svo um munar því að þjóðsögunum er fléttað
jafnt og þétt inn í söguna af Eyvindi allt þangað til manni er farið að finnast
hálendið vera eins og sagnaland, eins konar Tolkien-heimur þar sem allt getur
gerst. Það var líka yfirlýst markmið Kristínar Helgu Gunnarsdóttur sem sagði
í þakkarræðu sinni þegar hún fékk Vestnorrænu barnabókaverðlaunin 2007:
„Tilgangur minn með Draugaslóð var meðal annars að flytja hálendið inn á
heimilin og rifja upp sannar sögur og lognar af Kili. Það er fortíðin sem kennir
nútíðinni að stíga inn í framtíðina og því er mikilvægt að við höldum áfram að