Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Page 111
TMM 2008 · 4 111
B ó k m e n n t i r
tína upp gamlar sögur – halda þeim á lofti – færa í nýjan búning og flytja á
milli kynslóða.“
Þetta er náttúrlega fagur söngur í eyrum gamals kennara en hér eins og svo
oft áður þegar um bækur fyrir börn og unglinga er að ræða verða boðunar- og
skemmtigildi textans að vera í jafnvægi. Mér finnst það takast afar vel í þessari
fádæma fallegu bók. Fyrst og fremst af því að þjóðsögurnar verða virkar í fram-
vindu sögunnar og eru unnar djúpt inn í textann en hanga ekki utan á honum
eins og skraut.
Guðmundur Andri Thorsson
Sagan eftir söguna
Gyrðir Elíasson: Sandárbókin. Uppheimar 2007.
Andóf Gyrðis Elíassonar er ekki fólgið í því að byrsta sig reglulega í blöðum um
þjóðfélagsástandið og hann er ekki líklegur til að halda ræðu í gjallarhorn á
fjöldafundi. Rödd hans er lágvær og stíllinn lygn, yfirbragð textans fíngert og
framkoma höfundar við persónur sínar jafnt sem lesendur til fyrirmyndar. Og
þó er hann andófsmaður.
Það birtist á ýmsan hátt. Til dæmis svona:
Ég horfi á friðsæla reykjarlopa stíga upp af gasgrillunum í kvöldkyrrðinni, og heyri
óm af röddum, hlátur, stundum söng, og í kvöldsólinni glampar oft á gullnar bjór-
dósir, snögg leiftur, eins og bjarmi frá lífi sem verður mér aldrei tiltækt. Ég hef aldrei
lært að grilla. Þessi göfuga matarlist smáborgarans er mér lokuð bók. Ég á ekki einu
sinni ómerkilegt kolagrill. Máltíðir mínar eru umfram allt einfaldar og fljótgerðar,
þá sjaldan að ég elda eitthvað. En stundum á kvöldin sit ég í stól á pallinum með
skissubók á hnjánum og rissa upp með kolakrít þessa gráleitu reykjarsveipi frá öðru
tilverustigi. (Sandárbókin, bls. 19-20)
Skyldi nokkru sinni hafa verið búinn til jafn fallegur texti um þetta athæfi sem
mörgum þykir heldur lítilmótlegt: að grilla og drekka dósabjór? Það má staldra
við ljóðrænar eigindir textans, músíkina í honum, hnígandi þríliði og tvíliði á
víxl, fjölbreytta sérhljóða, lotulangar setningar á móti stuttum og snöggum –
rímið og hálfrímið; það má jafnvel staldra við orð eins og „reykjarlopa“ og dást
að því. Grillbras og bjórþamb er hér sveipað mildri fegurð þótt bjórglöð hlátra-
sköllin séu líkust því að „fólkið sé að reisa sér hljóðmúr gegn dauðanum“ (bls.
31). Og allt í einu vekur þessi hversdagslega iðja með okkur tregafullar og nán-
ast ljóðrænar kenndir, og við skynjum til fulls hvað það táknar að standa