Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Page 112
112 TMM 2008 · 4
B ó k m e n n t i r
álengdar við hvunndagstilveru „venjulegs fólks“. Því að þó að örli á írónínu
(„þessi göfuga matarlist smáborgarans“) þá er grillfólkið ekki dæmt hér en hins
vegar undirstrikuð fjarlægð sögumanns frá því, textinn miðlar algjörri fjar-
lægð – einangrun, útlegð.
Þessi textabútur gæti sem hægast verið prósaljóð, því að sögur Gyrðis eru
stundum eins og ljóð en ljóð hans eins og sögur.
Hann hefur alltaf tregðast við að láta draga verk sín í dilka og farið sínu
fram, með þrjóskulegri hægðinni svo að bækur hans hafa á sér afar persónu-
legan svip, og eru fögur verk í sjálfum sér. Þessu nær hann fram með ýmsum
hætti: til dæmis með því að nota ellefu punkta Garamond-letur á sautján
punkta fæti, og með því að nota undurfagra teikningu Sigurlaugs bróður síns
framan á bókinni sem Aðalsteinn Svanur hefur fagurlega fyrirkomið á káp-
unni – og líka með því hvernig textinn situr á síðunum, í úthugsuðu gull-
insniði. Ekki fer á milli mála, í smáu og stóru, að hér er bók úr sagnaheimi
Gyrðis.
Sögur hans gerast oftast nær í þekkjanlegum veruleika þar sem venjulegur
íslenskur lesandi á að geta kannast við sig en þær gera ekki tilkall til að end-
urspegla þjóðfélagslegar kringumstæður. Undir lygnu yfirborði ríkir hins
vegar spenna. Meðan við lesum skynjum við að bak við hverja málsgrein lúrir
sífellt annar heimur, heimur óreiðu, voða og sorgar; heimurinn þar sem hið
liðna býr, heimurinn þar sem draumar okkar eiga upptök sín. Stundum skarast
þessir heimar.
Á þessum og ýmsum öðrum mörkum titrar textinn. Í honum er alltaf kynleg
spenna. Sögumaðurinn keyrir til dæmis þögull og einrænn en meðan á akstr-
inum stendur ólmast ærslabelgurinn Dizziy Gillespie í kasettutækinu, blásandi
sín háu-c á sinn beyglaða trompet; fyrir vikið færist eitthvað spaugilegt inn í
einsemd mannsins – eitthvert annarlegt líf og fjör truflar gruflið …
Sögur Gyrðis endurspegla ekki þjóðfélagshætti hvað sem líður þekkjanleg-
um veruleika. Hann lýsir ekki fólki þannig að því sé ætlað að vera fulltrúar
tiltekinna þjóðfélagsstétta, lífsmáta eða hugmynda. Persónur hans eru ekki
týpur, bækur hans eru mennskari en svo – Gyrðir er höfundur mennskunnar
í íslenskum bókmenntum – og það sem hendir persónur hans endurspeglar
ekki endilega tiltekna þjóðfélagsþróun. Okkur er ekki beinlínis ætlað að draga
tiltekna lærdóma af sögum hans um æskilega skipan þjóðfélagsins eða að til-
tekin hegðun leiði til glötunar. Hann gerir sér ekki far um að miðla tíðaranda,
dæma hann og hvað þá móta hann.
Og þess vegna færast sögur hans ekki á rökvíslegan hátt frá einum punkti til
annars, eða leiða til rökréttrar niðurstöðu. Persónur hans verða ekki einhvers
vísari, þroskast ekki í þeim skilningi eða uppljómast. Í þessari sögu er allt slíkt
löngu um garð gengið.
Og hugsanlega má segja að hér sé sagan eftir söguna komin. Því að Gyrðir
neitar lesendum sínum um hina hefðbundnu „sögu“ með upphafi, miðju,
hápunkti og niðurstöðu. En tæpt er á mikilli sögu: kannski varð uppgjör við
falska tilveru, kannski dó einhver, kannski gerðist eitthvað í sambandi við kon-