Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Síða 115
TMM 2008 · 4 115
B ó k m e n n t i r
rökkurbelti sem umlykur jörðina og allir sem skapa leita í.“ (Sandárbókin bls.
118)
Þannig er Sandárbókin stór bók í smáu sniði. Hún sýnir okkur mann á gangi
í náttúrunni – og þar með Manninn í Náttúrunni. Hún fjallar um hinstu daga
hans og þar með um hinn efsta dag. Hún fjallar um lífið straumþunga með
sanda á aðra hlið og skóga á hina. Hún er snilldarverk um misheppnað verk.
Ása Helga Hjörleifsdóttir
„Á vegum hamingjunnar og skuggans“
Steinunn Sigurðardóttir: Ástarljóð af landi. Mál og menning, 2007.
Ástin er handfylli í skáldskap Steinunnar Sigurðardóttur. Hún er himnaríki og
helvíti, allsnægtir og eyðiland, ástæða til að lifa og ástæða til að deyja. Ljóða-
bókin Kartöfluprinsessan og skáldsögurnar Tímaþjófurinn, Hundrað dyr í gol-
unni, Ástin fiskanna og Sólskinshestur bera fagurfræði höfundarins glöggt
vitni: Ástin lífgar okkur við, en hún er hverful. Þegar hún svo heldur á brott er
það dauðinn, í einni eða annarri mynd, sem tekur sæti hennar. Í raun gengur
höfundurinn skrefi lengra, því elskhuginn í skáldskap Steinunnar ber oftar en
ekki svip dauðans, og í fyrsta kossi er að finna vísun í endalokin. Eða eins og
segir í „Upphafsljóðum fyrir eilífa byrjendur“ í nýjustu ljóðabók Steinunnar,
Ástarljóðum af landi (bls. 13):
Í upphafi var kossinn
smákoss en alveg ákveðinn koss,
sá sem var upphafið að endalokum kossanna.
Í Hundrað dyrum í golunni er elskhuginn nokkurs konar myrkraprins sem býr
við jaðar kirkjugarðs, í Kartöfluprinsessunni er ljóðmælandinn beinlínis grafinn
lifandi af þeim sem hún elskar, og þannig mætti lengi telja. Með öðrum orðum:
Ástin er sveipuð feigðarljóma, og hverfulleiki hennar er ekki síður tengdur gangi
náttúrunnar. Óáreiðanlegar tilfinningar eru settar í samhengi við duttlunga og
ægivald náttúrunnar, einnig við lífið sem hirðir ekki um mannshjartað.
Ástarljóð af landi sver sig í ætt við fyrri verk. Hér er að finna gamalkunn
leiðarstef: ást, missi, dauða, evrópskar borgir og íslenska náttúru. Bókin sam-
anstendur af stökum ljóðum og ljóðabálkum og skiptist í sjö hluta. Í áður-
nefndum fyrsta hluta er upphaf ástarinnar sveipað fortíðarhulu og tónninn
gefur til kynna ákveðið sjónarhorn, líkt og ljóðmælandi hafi fyrir löngu glatað
ást sinni og líti til baka, einsamall (14):