Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Page 118
118 TMM 2008 · 4
B ó k m e n n t i r
Þessi ástarjátning til lífsins myndar brú yfir í kaflann „II: Framlengdur sum-
ardans fyrir austan fjall“, þar sem minningar um ástina svífa nú ekki um stræti
evrópskra borga, heldur erum við á Íslandi í október, þegar „landið er tilsýnd-
ar hlýtt, en ekki / í verunni“ (63). Forgengileg ástin er hér í félagsskap óhaggan-
legrar náttúru: „Allt sem einu sinni var / er langar leiðir áfram“ (63). Eða hvað?
Er þessi sjötti kafli útópískur draumur um paradís, undanfari lokakaflans þar
sem tónninn er annar og dapurlegri?
Lokakafli bókarinnar, „III: Einu-sinni-var-landið“, er ástarljóð til deyjandi
lands, til Íslands. Þar ferðumst við með einsetumanni um landið og sögu þess
frá landnámi til virkjana. Í upphafi telur hann sig hafa fundið fyrirheitna land-
ið, en með tímanum verða draumfarir hans ískyggilegar og landið líkara eyði-
landi, „Gróður á burt og litfegurð merkurinnar“ (85). Þetta er ekki lengur
ósnortin paradís, heldur „Jörð lifandi manna: hamflett deyjandi dýr“ (85).
Einsetumaðurinn harmar þróunina, og sýn hans vekur grunsemdir um að
landið sé jafn hverfult og ástin milli manna. Darwin hefði ekki getað séð slíka
þróun fyrir, svo ekki sé minnst á skapara himins og jarðar. Mannkynið lendir
í vanda hafi það engan stað að standa á, og hugsanlega er ferðalag einsetu-
mannsins vísun ættuð úr framtíðinni, þegar við verðum búin að gefa landið frá
okkur, og þar með fótfestuna. Ástarljóð af landi sem var, eins og titillinn gefur
til kynna.
Í Ástarljóðum af landi sameinast, eins og áður sagði, mörg helstu leiðarstefin í
skáldskap Steinunnar Sigurðardóttur. Og líkt og í höfuðverkum sínum snýr
hún sér beint að kjarnanum, ást, dauða og náttúru, eða eins og Guðni Elísson
skrifar: „Steinunn er aldrei betri en þegar hún hnýsist í kringum sjálfan kjarn-
ann, svo vitnað sé í Hamlet“.2 Hvert einasta ljóð er í raun veröld út af fyrir sig,
vísun í ástina sveipaða hulu fortíðar, vísun í allt sem var og allt sem koma skal.
Ljóðmælandinn – sú sem elskaði – hefur búið um sig í vita á skeri sem eitt sinn
var land, líkt og einsetumaður, og horfir yfir hafið sem er ýmist lygnt eða úfið.
Hún skrifar um þá daga þegar hún barst með öldunum á ólgusjó. Nú er hún
komin í land, sárin gróin, blóðið storknað, og húðin slök (þótt hjarta og tára-
kirtlar séu enn á sínum stað) og hún yrkir ástarljóð af landi.
Tilvísanir
1 Bruno Schulz: Krókódílastrætið, þýð. Hannes Sigfússon (Reykjavík: Mál og menn-
ing, 1994), bls. 33.
2 Guðni Elísson, „Þó að lífið sjálft yfirskyggi dauðann“, ritdómur um Ástarljóð af
landi, Lesbók Morgunblaðsins 8. desember 2007.