Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Page 120
120 TMM 2008 · 4
B ó k m e n n t i r
sónuleg tengsl. Þær upplýsingar eru oft sóttar í efni frá samtímamönnum Dav-
íðs og vekja stundum furðu vegna skorts á gagnrýnu mati.
Í texta Silju Aðalsteinsdóttur um Davíð í nýju íslensku bókmenntasögunni
(s. 150-151) er prentuð saga úr bók frá 1965 um Davíð,4 höfð eftir Kristjáni
Jónssyni bæjarfógetafulltrúa á Akureyri. Það er saga sem Davíð sagði Kristjáni
af kvæðinu „Skógarhind“ og eins og Silja bendir réttilega á þá er þetta helgisaga
um tilurð kvæðisins. Hún segir frá því að Davíð hafði alllengi fengist við að
yrkja kvæði um skóginn og líf skógardýranna. Kvæðið lengdist smám saman
og varð að kvæðabálki sem illa gekk að fága og fella saman eins og skáldið
vildi. Handritið hvarf á dularfullan hátt úr skúffu á hótelherbergi, skáldið lok-
aði sig inni í sólarhring og svaf lítið en svo kom andinn yfir hann og um mið-
nættið lá kvæðið um skógarhindina fullgert á borðinu fyrir framan hann.
Sagan er ágæt og segir ýmislegt um samtímann. Í bók Friðriks er þessi sama
saga höfð eftir Kristjáni Jónssyni en nú eins og heilagur sannleikur (s. 425–
426), enda haft fyrir satt að skáldið hafi sagt þetta sjálft! Nýrri og gagnrýnni
skilningur á bókmenntum og heimildum fær hvergi nærri að koma.
Hið umdeilda skáld!
Víða í bókinni má finna dæmi um það hvernig rætt hefur verið um skáldskap
Davíðs og mat á honum. Höfundur virðist samkvæmur sjálfum sér þegar hann
ræðir slík efni. Það verður alltaf að aðalatriði hverjir eru með skáldinu og
hverjir á móti; efnisleg rök skipta þar litlu. Afstaða andstöðumanna er yfirleitt
útskýrð með ágiskunum sem því miður eru stundum lágkúrulegar og blátt
áfram kjánalegar. Friðrik virðist gleyma sér í sárindum yfir því þegar gagnrýn-
endur gagnrýna Davíð en gleði þegar þeir lofa hann. Til að útskýra þetta nánar
má benda á þátt Kristins E. Andréssonar sem skýtur upp kollinum við og við í
ævisögunni.
Friðrik vísar til heimilda um að Kristinn hafi verið: „… landsþekktur maður
á sínum tíma, alþingismaður um skeið, bókmenntamaður og í forystusveit
sósíalista.“ (s. 190) Ástæðan fyrir því að Kristinn er nefndur er þó ekkert af
þessu heldur sú að Friðrik segir hann hafa gifst einni af ástkonum Davíðs og
skrifað ákaflega óvæginn og rætinn ritdóm um eitt verka hans. Hér er að
sjálfsögðu verið að dylgja um að bókmenntafræði eða heimspeki Kristins hafi
ekki ráðið skrifum hans heldur hafi kynferðisleg afbrýðisemi út í hið fagra
stórskáld stjórnað penna Kristins í hinum rætna dómi – nema Þóra Vigfús-
dóttir hafi reynst honum sú lafði Macbeth sem fékk hann til að vega að kon-
unginum. Lýsingin á ferli Kristins á væntanlega að sýna að þrátt fyrir gáfur og
metorð hafi hann getað lagst svo lágt að ráðast að Davíð. Ekki er gert ráð fyrir
því að bók Davíðs geti hafa verið tilefni neikvæðs ritdóms, ekki virðist Friðrik
einu sinni leiða hugann að því að bæði Kristinn og Davíð hafi ef til vill verið
börn síns tíma og í herkví kalda stríðsins. Höfundur er þó sagnfræðingur að
mennt. Á þessum stað greinir Friðrik ekki nánar frá efni hins óttalega ritdóms
en boðar að það verði gert síðar.