Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Qupperneq 125
TMM 2008 · 4 125
B ó k m e n n t i r
Bjarni Bjarnason
Tíminn er blár – eins og blús
Guðmundur Óskarsson. Vaxandi nánd. Orðhviður. Nykur. 2007.
Ef við segjum, eins og gert er í greininni „Heimspekileg endurnýjun raunsæis“
(TMM 1 2008, bls. 127), að skrif margra Nýhilhöfunda einkennist af kreppu
karlmennskunnar, svartri rómantík og greiningu á tómhyggju og tilgangsleysi,
þá er forvitnilegt að sjá að Vaxandi nánd, orðhviður Guðmundar Óskarssonar
(f. 1978), sem er jafnaldri margra Nýhilhöfundanna, er á allt öðrum nótum:
GETULEYSI
Ég vaknaði og settist upp í rúminu mínu. Ljóst í herberginu, samt enn mið nótt.
Glaðvakandi og svekktur starði ég niður fyrir mig, á tærnar undan sænginni.
Draumgetan hafði brugðist mér á mikilvægu augnabliki.
Þá var ég vanur að færa inn í dagbók allt sem mér fannst skipta máli. Ég teygði mig
í hana á náttborðinu, kraup í rúminu og skrifaði í sumarnæturljósinu á gluggakistunni
með alla hlæjandi og grátandi trúðana á gardínunum utan um mig: Hún heldur mér
föngnum í þessum heimi sem öðrum. Draumur: Gleðiríkur eltingaleikur í lynghlíðum,
svo hrösum við í faðmlögum – og veltumst þar til við finnum lítið mosabeð milli þúfna.
Þá vaknaði ég; skorti reynslu til að dreyma lengur. (Bls. 36)
Ef karlmaðurinn í þessari sögu á í kreppu þá er hún í mesta lagi brosleg, sem
gæti vel verið afstaða höfundar til kreppu karlmennskunnar. Dagbókarrit-
arinn tekur spaugilegt míkrókosmískt drama í hugarheimum alvarlega og
verður geðþekkur fyrir vikið. Hann er óreyndur og þráir reynslu. Í „Fundi“ er
fyrstu reynslu ungs karlmanns með æskuvinkonu lýst alveg íróníulaust. Hann
vill eiga hana, hún vill fara út í heim, þau ræða málin í bróðerni og sofa svo
saman úti í náttúrunni að skilnaði:
Hátt grasið var svalt, síðar volgt … þau hvísluðust milli kossa … munaðarlausum til-
finningum strokið um vangann … hún var með grannan gullhring í þar sem brjóst
er næmast … og hann skalf, samt var honum heitt, óumræðilega heitt – í sitt fyrsta
skipti … og svo aftur og … grasið var troðið, eins og stór björn hefði sofið þar næt-
urlangt, þegar þau fóru löngu síðar. (Bls. 71)
Reynslan komin og hún er fín og lítið mál. Kynin geta rætt saman, til dæmis
yfir nautaati („Náttúra“, 37) sem æsir þau svo kynferðislega að þau koma sér
saman um að fara heim og gera það þar til þau lyppast niður eins og nautið.
Rómantíkin er einlæg, margar lýsingar á konum eru skýrar og fagrar án þess
að verða væmnar. Metnaðurinn í textanum liggur í að ná mannlegu umkomu-
leysi, ná því minnsta sem þó fangar hugann: