Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Síða 127
TMM 2008 · 4 127
B ó k m e n n t i r
spekilegum undirtóni, tengjast tímanum og eðli skáldskapar. Bráðum eyðidal-
ur (43), og Á stöðvarbíl aftur í tímann (67) fást eftirminnilega við tímann og
eru að mínum dómi bestu textar bókarinnar. Í síðara dæminu kemur í ljós,
eftir að farþeginn í leigubílnum hefur endurupplifað kvöldið þegar hann
kynntist konunni sinni, að hann er með ferðatösku því hann er líklega nýfar-
inn frá henni. Það staðsetur hann skemmtilega í hringlaga tíma.
Grundvallarvandinn sem steðjar að fólki í Vaxandi nánd er yfirleitt ekki
stór, grunnstoðir og gildi samfélagsins er lítið gagnrýnt. Þegar allt er tekið
með, einlæg frásögn, einlæg rómantík, hlýr húmor, fegurð þess smáa í lífi
sjarmerandi og mannlegs fólks sem fælir burt tómhyggju og skapar þá notalegu
en órökréttu tilfinningu að lífið hafi tilgang, þá virðist mér mega kalla Guð-
mund Óskarsson, allavega í þessari fyrstu bók hans, krúttkynslóðarhöfund.
Betur hljómaði kannski að tala um kurteisu kynslóðina sem ætti líka vel við
hann. Í Viðskiptum (30) talar útigangsmaður um að í hans heimi versli menn
með kurteisi og hún verður hjá honum að gjaldmiðli, nokkuð sem gæti verið
ágætt manífestó fyrir krúttkynslóðina. Mikið hefur verið talað um krúttsen-
una í tónlist og það er forvitnilegt að sjá einkenni kynslóðarinnar greinilega í
bókmenntum.
Hvort krúttkynslóðarfólk sé örlítið meira til hægri eða fyrir miðju í stjórn-
málum og hafi minni áhyggjur af að allt fari veg allrar veraldar en Nýhilfólk
sem er þá meira til vinstri skal ósagt látið. Og hvort tómhyggjugreining Nýhil-
fólks sé að hluta sprottin úr almennri kreppu vinstri flokka sem voru í lægð
eftir fall Berlínarmúrsins skal heldur ekki fullyrt um, enda skortir til þess fleiri
forsendur en huglægt mat út frá nokkrum bókum og netsíðum. En ef svo væri
mætti kannski ímynda sér að þessir tveir straumar, Nýhil og Krútt, rynnu
meira saman þegar hægri- og vinstrimenn eru komnir saman í stjórn. Höfund-
arnir sem tengjast þessum straumum eru að auki komnir á þann aldur að þeir
syngja meira hver með sínu nefi, óháðari sinni kynslóð. Það gæti haft áhuga-
verða hluti í för með sér að sjá þessa krafta renna saman, og spá svo í hverskon-
ar kynslóð komi næst.