Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Page 130
130 TMM 2008 · 4
B ó k m e n n t i r
leikanum – lifandi fyrirmyndir eða ekki, raunverulegir staðir eða kannske að
einhverju leyti ímyndaðir – og þar fram eftir götunum. Allt er þetta fróðlegt og
hvatning fyrir menn að lesa verk viðkomandi höfundar, ef þeir hafa ekki gert
það þegar.
Ólafur Guðsteinn Kristjánsson
Ófullnægja hvunndagsins
Ágúst Borgþór Sverrisson: Hliðarspor. Skrudda, 2007.
Berglind Gunnarsdóttir: Tímavillt. Ormstunga, 2007.
Skáldskapur er markaður þeim tíma sem hann er skrifaður á. Því er ekki að
undra að verk sem koma út á svipuðum tíma geti átt sitthvað sameiginlegt. Það
á við um skáldsögurnar Hliðarspor og Tímavillt.
Þetta eru í grunninn einfaldar sögur. Í Tímavillt segir frá Áróru og hennar
tilbreytingarsnauða lífi. Hún er þrjátíu og sex ára, einmana, vinnur á bókasafni
og elskar bækur. Einn daginn kynnist hún sér umtalsvert yngri manni og tekst
með þeim ástarsamband með tilheyrandi ástríðum. Það samband leysist upp
með tilheyrandi sorg. Í Hliðarspori segir frá Daníel, Árna og Elínu. Daníel og
Árni eru miðaldra, ráðsettir og kvæntir. Daníel er ritstjóri á tímariti og Árni er
rithöfundur. Elín er ungur, meðalgreindur bókmenntafræðinemi sem vinnur í
bókabúð í hlutastarfi. Hún hefur fallið í stafi fyrir Árna, bæði rithöfund-
arhæfileikum hans og manninum sjálfum, og tekur upp á því að senda honum
tölvubréf. Þau vinda upp á sig þannig að milli þeirra upphefst frekar innilegt
samband, án þess þó að til líkamlegs samneytis komi. Daníel tekur einnig hlið-
arspor er hann kaupir sér þjónustu vændiskonu.
Væri ekkert meira í þessum sögum mætti láta hér staðar numið og útskrifa
þær sem framhjáhalds- og ástarsögu. En oft býr meira að baki en orðað er
beint, og þótt þessar sögur séu um margt ólíkar eru það ekki einvörðungu hag-
kvæmissjónarmið sem ráða „tvær fyrir eina“ formi greinarinnar. Sögurnar
eiga sitthvað sammerkt; ýmislegt sem endurspeglar okkar hvunndagslega
veruleika. Í þessu tilfelli er vert að þrengja sjónarhorn hinnar hversdagslegu
tilveru við frumspekilega tvíhyggju efnis og anda, án þess þó að farið sé um of
á gróteskar eða heimspekilegar slóðir.
Hliðarspor er í þremur hlutum sem sagðir eru frá sjónarhornum aðalpersón-
anna þriggja. Fyrsti í gegnum Daníel, annar Árna og loks Elínu. Allt er þetta
haganlega sett saman eða „vandlega fléttað og vel stílað raunsæi“, svo vitnað sé
til lýsingar á verkum Árna í bókinni (25). Sagan er fremur stutt eða 149 síður,