Saga - 2004, Page 18
hafði að mestu verið lögð undir tún og matjurtagarða þegar kom
fram á fjórða áratuginn. Lítil byggð var á svæðinu, einungis fáein
býli á stangli.1
Forráðamenn fyrsta íslenska flugfélagsins, Flugfélags Íslands,
sem starfaði á árunum 1919–1920, komust að þeirri niðurstöðu að
tún sem Eggert Briem leigði í Vatnsmýri væri heppilegasta lendingar-
svæðið fyrir flugvél félagsins. Forsendur fyrir valinu voru þær að
svæðið þyrfti að vera grasi vaxið og slétt, sem næst bænum og með
nægilegt svigrúm til allra átta.2
Árið 1928 hóf Flugfélag Íslands (nr. 2) aðra tilraun til flugreksturs
hér á landi og nú urðu sjóflugvélar fyrir valinu. Til að byrja með
hafði félagið aðstöðu í Reykjavíkurhöfn en síðar við Vatnagarða við
Viðeyjarsund. Starfrækti félagið farþega- og póstflug en fljótlega
seig á ógæfuhliðina og hætti félagið rekstri árið 1931. Flugvélagnýr-
inn hljóðnaði þó ekki alveg yfir höfuðstaðnum því að 1932 og 1933
höfðu hollenskir vísindamenn, sem stunduðu veðurathuganir hér-
lendis, aðstöðu í Vatnsmýri fyrir tvær litlar flugvélar sem þeir not-
uðu við rannsóknir sínar. Áður hafði lendingarstaðurinn verið
sléttaður, skurðir brúaðir og flugskýli byggt. Alls fóru Hollending-
arnir í 400–500 flugferðir á tæpu ári og töldu þeir staðinn ákjósan-
legan svo framarlega sem hann fengi viðunandi umhirðu. En þegar
Hollendingarnir yfirgáfu landið voru brýrnar og flugskýlið rifin
„eins og hér ætti aldrei að hefjast flug að nýju“, svo vitnað sé til
orða Agnars Kofoed-Hansens.3
Í ágúst 1936 gerðust þau tíðindi að ríkisstjórnin stofnaði emb-
ætti flugmálaráðunautar ríkisins og réð Agnar til starfans. Hann
var aðeins liðlega tvítugur að aldri en hafði þá nýlega lokið flug-
námi hjá danska hernum. Megintilgangurinn með hinu nýja emb-
ætti var að undirbúa flugrekstur innanlands í smáum stíl en leita
jafnframt eftir samstarfi við erlenda aðila með víðtækari flugrekst-
ur í huga, jafnvel millilandaflug. Erlend flugfélög og ríkisstjórnir
höfðu um árabil unnið að því að koma á föstum flugsamgöngum
milli Evrópu og Norður-Ameríku og aðeins virtist tímaspursmál
hvenær sá draumur rættist. Ein þeirra flugleiða sem til greina komu
A R N Þ Ó R G U N N A R S S O N18
1 Gissur Ó. Erlingsson, „Vatnsmýrin“, bls. 449. — Ólafur Karl Nielsen, „Vistkerf-
ið“, bls. 80.
2 Arngrímur Sigurðsson, Annálar íslenskra flugmála 1917–1928 1, bls. 30–31.
3 BsR. Aðfnr. 3398. Agnar Kofoed-Hansen til bæjarráðs, 23. apríl 1937. Sami til
skipulagsnefndar, 25. jan. 1939.
Saga haust 2004 - NOTA 30.11.2004 11:32 Page 18