Saga - 2004, Page 22
Sú staðhæfing Guðmundar að það hafi verið orðin „algild
regla“ að flugvellir borga væru „hafðir alllangt utanvið og jafnvel
langt frá hinum bygðu svæðum“ er hæpin ef ekki beinlínis röng,
a.m.k. á það ekki við um 26 helstu flugvelli í evrópskum borgum á
þessum tíma. Tólf þeirra voru 3–10 km frá miðborgum og sjö aðrir
voru 10–15 km utan við miðborgir en það geta ekki talist miklar
fjarlægðir þegar um var að ræða borgir með hundruð þúsunda eða
milljónir íbúa.12 Af tiltækum heimildum verður ekki séð hvers
vegna Guðmundi og samflokksmönnum hans þótti staðsetningin
slæm — hvort þeir höfðu í huga öryggismál, aðrar landnytjar eða
eitthvað annað — eða hvort þeir bentu á aðra staði fyrir flugvöll og
flugskýli. Ekki er hægt að útiloka að pólitískur ágreiningur hafi ráð-
ið einhverju um andstöðuna því að á þessum árum gátu framsókn-
armenn og sjálfstæðismenn sjaldnast verið samstiga. Hafa verður
hugfast að það var fyrir tilstilli framsóknarmannsins Vilhjálms Þórs
á Akureyri að Flugfélag Akureyrar var að hefja flugsamgöngur
milli Akureyrar og Reykjavíkur um þetta leyti og sú staðreynd
kann að hafa hleypt stífni í sjálfstæðismenn.
Sjónarmið þeirra sem vildu koma upp flugvelli í Vatnsmýri
fengu stuðning þegar foringi þýsks svifflugsleiðangurs, sem hér
var staddur í boði Svifflugfélags Íslands, Bruno Baumann, ritaði
grein í Morgunblaðið sumarið 1938 þar sem hann lýsti þeirri skoðun
sinni að flugvellir nærri miðborgum hefðu eflt borgirnar, jafnvel
þótt rífa yrði íbúðarhúsnæði til að koma flugbrautunum fyrir. Með
flugvelli í Vatnsmýri væri kjörið að sameina landflug og sjóflug en
rekstur landflugvéla ætti þó að setja í öndvegi sökum hagkvæmni í
rekstri og þess að fjöldi lendingarstaða væri fyrir hendi víðsvegar
um landið.13 Flugmiðstöð í næsta nágrenni bæjarins var ætlað svip-
að hlutverk og Reykjavíkurhöfn hafði fyrir skipasamgöngurnar.
Áðurnefndir uppdrættir þeirra Harðar og Gústafs gerðu ráð fyr-
ir flugvelli eins nærri byggðinni innan Hringbrautar og framast var
unnt. Í nóvember 1938 sendi Flugmálafélag Íslands bæjarstjórninni
uppdrátt sem hugsanlega hefur átt að koma til móts við þá sem
vildu hafa völlinn fjær byggðinni. Uppdráttinn gerði Gústaf að til-
hlutan félagsins og í samráði við ríkisstjórnina.14 Með því að færa
A R N Þ Ó R G U N N A R S S O N22
12 John Walter Wood, Airports, bls. 8, 145–272.
13 Bruno Baumann, „Flugmiðstöð Íslands í Reykjavík“, bls. 5–6.
14 BsR. Aðfnr. 3398. Flugmálafélag Íslands til bæjarstjórnar, 3. nóv. 1938. „Flug-
völlur í Vatnsmýrinni í Reykjavík“, Gústaf E. Pálsson, 2. nóv. 1938.
Saga haust 2004 - NOTA 30.11.2004 11:32 Page 22