Saga - 2004, Page 36
til flugmála en fjárlagafrumvarpið gerði ráð fyrir og studdi
framkomna breytingartillögu þar um, ekki síst í ljósi þeirra ráða-
gerða sem uppi voru um flugvallargerð í Reykjavík.51 Stuðningur
Ólafs við málið átti eftir að koma enn betur í ljós.
Um það bil mánuði eftir að skipulagsnefnd tók formlega af-
stöðu til staðsetningar flugvallarins ræddi nefndin tillögu um
breytingu á fyrirhuguðu íþróttasvæði við Öskjuhlíð á þá leið að
leikvangurinn (Stadion) yrði fluttur „af bersvæði og upp undir
Öskjuhlíðina sunnanverða“, eins og það er orðað í fundargerð.
Nefndin var hlynnt þessari hugmynd „svo fremi að gjörlegt væri að
grafa „Stadion“ að einhverju leyti inn í jaðar hlíðarinnar … enda
væri til muna skjólsælla þar undir hlíðinni“.52 Þótt ekki komi það
fram í fundargerðinni hefur ástæða tillögunnar trúlega verið sú að
hluti leikvangsins var á aðflugssvæði N/S-brautar eins og glöggt
kemur fram á mynd 2. Tilfærsla flugvallarstæðisins til suðvesturs
hafði því þrengt að íþróttasvæðinu.
Þótt margt benti til að bæjarstjórn og ríkisstjórn ætluðu að styðja
byggingu flugvallar sunnan Vatnsmýrar má vera að efasemda-
raddir um sambúð vallar og byggðar, sem og vaxandi ógn er
almenningi stafaði af flughernaði, hefðu getað knúið fram aðra
niðurstöðu í málinu.
Ógnin að ofan
Frá sjónarhóli óbreyttra borgara voru loftárásir skelfileg afleiðing
flugtækninnar. Í heimsstyrjöldinni fyrri voru loftskip og flugvélar í
fyrsta skipti notuð að ráði í þágu hernaðar, m.a. með því að gera
loftárásir á borgir fjarri víglínunni. Allt var þetta í fremur smáum
stíl miðað við það sem síðar gerðist en þó féllu hátt í 1400 manns í
Bretlandi og yfir 3300 særðust af völdum loftárása í styrjöldinni og
í Þýskalandi biðu um 750 manns bana og um 1850 slösuðust, allir á
síðustu sex mánuðum ófriðarins árið 1918.53 Með stigvaxandi víg-
búnaði á fjórða áratugnum var lögð aukin áhersla á uppbyggingu
A R N Þ Ó R G U N N A R S S O N36
51 Alþingistíðindi 1940 B, dálkar 112–113. Breytingatillagan var samþykkt en hún
var reyndar lögð fram í þeim megintilgangi að styrkja rekstur Flugfélags
Akureyrar. (Alþingistíðindi 1940 A, bls. 488; B, dálkur 170.)
52 Skst. Fundargjörðabók skipulagsnefndar 1938–1941, 3. apríl 1940.
53 Hermann Knell, To Destroy a City, bls. 98–117, 121. — Williamson Murray, War
in the Air 1914–45, bls. 73–79.
Saga haust 2004 - NOTA 30.11.2004 11:32 Page 36