Saga - 2004, Page 42
(fór einnig með utanríkismál) skrifaði rúmu ári síðar gagnrýndi
hann þessi vinnubrögð Ólafs.72 Í skýrslu Ólafs um flugvallarmálið
frá 8. nóvember 1940 kemur aftur á móti fram að hann lagði erindi
Bjarna fyrir ráðherrafund 17. október, áður en hann ræddi við
Smith, og að ráðherrarnir hefðu allir samþykkt „að skrifa sendi-
herra Breta, senda honum afrit af bréfi borgarstjórans og taka af
hálfu ríkisstjórnarinnar undir mótmæli hans gegn byggingu flug-
vallar svo nærri Reykjavík.“73
Hvernig sem mótmælum bæjaryfirvalda og ríkisstjórnarinnar
hefði verið komið á framfæri er afar ósennilegt og nánast útilokað
að þau hefðu breytt nokkru um áform Breta. Þeir áttu í styrjöld við
Þýskaland upp á líf og dauða og það hafði mikla þýðingu fyrir víg-
stöðu breska hersins á Norður-Atlantshafi að ná tryggri fótfestu á
Íslandi. Liður í þeirri áætlun var bygging flugvalla og Bretar höfðu
þegar rekið sig á hve erfitt gat verið að finna þeim stað í þessu erf-
iða landi.
Hinn 24. október 1940 barst atvinnu- og samgönguráðuneytinu
bréf frá ráðuneyti utanríkismála ásamt afriti af bréfi Harry O. Curtis,
hershöfðingja hernámsliðsins, til Smiths, sendiherra Breta, og fylgdi
með uppdráttur af fyrirhuguðum flugvelli.74 Í bréfi Curtis kemur
m.a. fram að hernámsliðinu hafi verið nauðugur sá kostur að gera
flugvöll fyrir allar tegundir flugvéla í Reykjavík eða í nágrenni bæj-
arins og hefði Vatnsmýri og svæðið sunnan hennar orðið fyrir val-
inu. Til að byrja með ætluðu Bretar að gera þarna völl með tveimur
825 metra löngum og 46 metra breiðum brautum en eins og fram
kom á uppdrættinum gerði áætlunin ráð fyrir að byggja mætti fjög-
urra brauta völl en það líktist mjög áformum Íslendinga. Curtis
sagði æskilegt að ríkisstjórnin eignaðist landið sem færi undir flug-
völlinn og að herstjórnin þyrfti aðeins að hafa samskipti við ríkis-
stjórnina varðandi landið. Hann fór þess á leit við Smith sendiherra
að hann reyndi að draga fram afstöðu stjórnarinnar til málsins og fá
samþykki hennar fyrir staðsetningu flugbrautanna, flugskýla og
verkstæða. Enn fremur taldi Curtis eðlilegt að ríkisstjórnin eignað-
A R N Þ Ó R G U N N A R S S O N42
72 ÞÍ. Utanríkisráðuneyti. 1967 B/172 Evrópustyrjöld X. „Frásögn“, skýrsla Stef-
áns Jóhanns Stefánssonar, 4. des. 1941, bls. 2.
73 ÞÍ. Utanríkisráðuneyti. 1967 B/169 Evrópustyrjöld IV. „Skýrsla um flugvall-
armálið“, Ólafur Thors, 8. nóv. 1940.
74 ÞÍ. Utanríkisráðuneyti. 1967 B/169 Evrópustyrjöld IV. „Skýrsla um flugvall-
armálið“, Ólafur Thors, 8. nóv. 1940.
Saga haust 2004 - NOTA 30.11.2004 11:32 Page 42