Saga - 2004, Page 46
Hinn 16. nóvember tóku gildi bráðabirgðalög sem heimiluðu
ríkisstjórninni „að taka eignarnámi vegna loftferða lóðir, lóðarrétt-
indi og mannvirki.“ Athygli vekur að í inngangi laganna var ekki
minnst á flugvallargerð hersins heldur tekið fram að þau væru sett
vegna þess að skipulagsnefnd, Flugmálafélag Íslands og bæjaryfir-
völd í Reykjavík hefðu orðið ásátt um að hefja flugvallargerð á
melnum milli Vatnsmýrar og Skerjafjarðar. Jafnframt hefðu þessir
aðilar skorað á ríkisstjórnina að ná eignarhaldi á þeim hluta svæð-
isins sem væri í einkaeign.82
Hér var óneitanlega verið að hagræða sannleikanum. Eins og
fram hefur komið hafði bæjarstjórnin ekki tekið endanlega afstöðu
til áforma Íslendinga um flugvallargerð, að öllum líkindum vegna
styrjaldarástandsins, og mótmælt harðlega framkvæmdum hersins
en vissulega hafði borgarstjóri mælt með eignarnámi úr því sem
komið var. Þjóðviljinn, málgagn Sósíalistaflokksins, gagnrýndi setn-
ingu bráðabirgðalaganna sem hann taldi vitna um undirlægjuhátt
ríkisstjórnarinnar gagnvart hernámsliðinu. Blaðið hafði áður and-
mælt flugvallargerðinni með þeim rökum að hún kallaði aukna
árásarhættu yfir höfuðborgina.83
Bráðabirgðalögin voru í gildi til vors 1941 en þá samþykkti Al-
þingi lög sama efnis um breytingu á lögum um loftferðir frá 1929.84
Engar umræður urðu um efni lagafrumvarpsins í þinginu en Jó-
hann G. Möller, þingmaður Reykvíkinga og Sjálfstæðisflokksins,
notaði tækifærið og óskaði eftir upplýsingum frá ríkisstjórninni um
flugvallargerðina. Jóhann sagði:
Eins og menn vita, er töluverður uggur í íbúum þessa bæjar út
af flugvallargerð Breta hér. Menn telja, að íbúum bæjarins sé
stefnt í meiri hættu eins og er en ef flugvöllurinn hefði verið
gerður annars staðar. Það hefur heyrzt, að brezka herstjórnin
hafi haft í hyggju að gera hann annars staðar, og ég hef frétt, að
til greina hafi komið að ryðja Hvassahraun [sunnan Straums-
A R N Þ Ó R G U N N A R S S O N46
82 Stjórnartíðindi 1940 A, bls. 321–322. Lendurnar sem teknar voru eignarnámi í
upphafi vegna framkvæmda hersins voru metnar til verðs af nefnd skipaðri
fimm mönnum og lá matið fyrir í ársbyrjun 1942. (ÞÍ. Stj. Í. II. Atvinnu- og
samgöngumálaráðuneytið. Dagbók 13, nr. 821. Flugvallarnefndin til atvinnu-
og samgöngumálaráðuneytisins, 6. jan. 1942 (afrit).)
83 „Að vera með í óréttinum“ [forystugrein], bls. 2. — „Bretar hefja flugvallar-
gerð í Reykjavík í heimildarleysi“, bls. 1. — „Brezka herstjórnin heldur áfram
flugvallargerð í Reykjavík þvert ofan í vilja bæjarst.“, bls. 3.
84 Stjórnartíðindi 1941 A, bls. 21–22.
Saga haust 2004 - NOTA 30.11.2004 11:32 Page 46