Saga - 2004, Síða 102
Sem fyrr segir hafa þeir sem fjallað hafa um barnaeldi á Íslandi
fyrr á tímum fyrst og fremst kannað tímabilið fyrir 1850.20 Í mínum
rannsóknum hef ég aftur á móti lagt megináherslu á tímabilið
1850–1920. Eitt af aðalmarkmiðum mínum var að skýra hvers
vegna dró úr ungbarnadauða í ólíkum staðfélögum og varpa ljósi á
það hvernig barnaeldishættir ásamt öðrum samverkandi þáttum
höfðu áhrif á ungbarnadauða og þróun hans. Greiningin snýr að
brjóstaeldi, lengd brjóstagjafar, að því hvenær byrjað var að gefa
börnum viðbótarfæðu, hver sú viðbótarfæða var og með hvaða
hætti börn voru mötuð, svo að eitthvað sé nefnt. Jón Ólafur Ísberg
virðist ekki hafa áttað sig á því að meginþunginn í greiningu minni
snýr að þessum atriðum en ekki að þeirri einföldu spurningu hvort
börn hafi verið höfð á brjósti eða ekki.
Brjóstamjólk hefur vissulega margháttuð æskileg áhrif á heilsufar
barna nú sem fyrr. Í vestrænum samfélögum með hátæknilæknis-
þjónustu og ákjósanlegar hreinlætisaðstæður þar sem öll heimili hafa
aðgang að rennandi vatni er brjóstagjöf hins vegar ekki jafnmikið
lykilatriði fyrir lífslíkur barna og þar sem þessar aðstæður eru ekki
fyrir hendi. Í mörgum þróunarlöndum samtímans er þessu ekki fyrir
að fara nema í mjög takmörkuðum mæli og þar hefur brjóstagjöf
reynst hafa úrslitaáhrif á lífslíkur barna. Viðamikil rannsókn sem
gerð var í Malasíu á níunda áratug 20. aldar og byggðist á greiningu
einstaklingsbundinna gagna sýndi t.d. að brjóstagjöf skipti ekki
miklu máli fyrir lífslíkur barna ef heimili höfðu aðgang að rennandi
vatni. Hins vegar var verulegur munur á dánartíðni brjóstabarna og
þeirra sem ekki fengu brjóst ef rennandi vatn var ekki fyrir hendi.21
Ó L Ö F G A R Ð A R S D Ó T T I R102
19 Sjá: Loftur Guttormsson, „Barnaeldi, ungbarnadauði og viðkoma á Íslandi
1750–1860“, bls. 137–169. — Helgi Þorláksson, „Óvelkomin börn?“ — Árni
Björnsson, Merkisdagar á mannsœvinni, bls. 87–98. — Sjá greiningu á þessum
rannsóknum í Saving the Child, bls. 24–25.
20 Sjá einkum: Loftur Guttormsson, „Barnaeldi, ungbarnadauði og viðkoma á
Íslandi 1750–1860“, bls. 137–169. — Gísli Gunnarsson, The Sex-Ratio, the Infant
Mortality and Adjoining Societal Response. — Helgi Þorláksson, „Óvelkomin
börn?“. — Árni Björnsson, Merkisdagar á mannsœvinni.
21 Julie DaVanzo, „A Household Survey of Child Mortality Determinants in
Malaysia“, bls. 315–316. — Sjá enn fremur: Barry Popkin, Linda Adair, John S.
Akin, Robert Black, John Briscoe og Wilhem Flieger, „Breast-Feeding and Di-
arrheal Morbidity“, bls. 874–882. — Robert Black og E.A. Robert, „Diarrheal
Diseases and Child Morbidity and Mortality“, bls. 141–161. — K. Molbak,
„Prolonged Breastfeeding, Diarrhoeal Disease and Survival of Children in
Guinea-Bissau“, bls. 1403–1406.
Saga haust 2004 - NOTA 30.11.2004 11:33 Page 102