Saga - 2004, Page 104
Munur á lífslíkum ungbarna eftir því hvort um þéttbýli eða
strjálbýli var að ræða minnkaði eftir að skólp- og vatnslagnir voru
lagðar í borgum. Þekking á gerlum og því hvernig sjúkdómar bár-
ust á milli manna hafði líka gífurleg áhrif. Vitneskja um það hvern-
ig hægt væri að koma í veg fyrir mengun neysluvatns, staðsetning
sorphauga fjarri vatnsbólum og lokun vatnsbóla hafði óumdeilan-
leg áhrif á lífslíkur barna, einkum í þéttbýli. Þekking á smitleiðum
breiddist hratt út eftir 1870 og á næstu áratugum á eftir urðu afger-
andi breytingar á heilsufari barna og ungbarna á Vesturlöndum.25
Undir lok 19. aldar fór einnig að draga saman með borgar- og sveita-
börnum og eftir 1940 var dánartíðni meðal barna á Vesturlöndum
yfirleitt ekki háð búsetu.26
Í ljósi hins mikla svæðisbundna munar á ungbarnadauða hér á
landi sem annars staðar lagði ég megináherslu á að rannsaka ung-
barnadauða í ólíkum staðfélögum og á mismunandi landsvæðum.
Með því móti taldi ég að unnt væri að meta vægi ólíkra áhrifaþátta,
þ.e. umhverfisþátta, félagslegra og menningarbundinna þátta,
barnaeldis og heilbrigðispólitískra þátta. Í ljósi rannsókna sem sýnt
hafa mun á ungbarnadauða í þéttbýli og strjálbýli var einnig mikil-
vægt að bera saman þéttbýl sjávarhéruð og strjálbýlar sveitir. Fyrir
valinu urðu Rangárvallasýsla og Þingeyjarsýslur sem fulltrúar
strjálbýlis og Gullbringusýsla sem fulltrúi þéttbýlis. Vegna sérstöðu
Reykjavíkur voru aðstæður þar rannsakaðar sérstaklega.27
Ó L Ö F G A R Ð A R S D Ó T T I R104
22 the Demographic Transition“, bls. 35–56. — Robert I. Woods, P.A. Watterson
og J.H. Woodward, „The Causes of Rapid Infant Mortality Decline. Part I.“ —
Robert I. Woods og Nicola Shelton, An Atlas of Victorian Mortality, bls. 47–64.
25 Dorothy Porter, Health, Civilization and the State. A History of Public Health from
Ancient to Modern Times, bls. 140. — Robert I. Woods og Nicola Shelton, An
Atlas of Victorian Mortality. — James C. Riley, Sickness, Recovery and Death. A
History and Forecast of Ill Health, 7. kafli. — Sören Edvinsson og John Rogers,
„Hälsa och hälsoreformer i svenska städer kring sekelskiftet 1900“, bls.
541–570.
26 Sjá t.d.: Marie C. Nelson, „Disease, Dirt and Demography“, bls. 115–140.
27 Ástæður þess að ungbarnadauði var skoðaður sérstaklega í Reykjavík voru
þær að samfélagsgerðin var af ýmsum ástæðum ólík því sem var í nágranna-
sveitunum. Í höfuðstaðnum voru embættismenn fleiri en annars staðar og því
var nauðsynlegt að skoða sérstaklega ungbarnadauða eftir þjóðfélagstéttum
(sjá: Ólöf Garðarsdóttir, Saving the Child, bls. 171–178). Þá má ekki gleyma því
að landlæknir sat í Reykjavík og að ljósmæður þar voru jafnan mun betur
menntaðar en almennt gerðist á landinu. Um áhrif þess á ungbarnadauða í
Reykjavík, sjá: Ólöf Garðarsdóttir, Saving the Child, bls. 158–162.
Saga haust 2004 - NOTA 30.11.2004 11:33 Page 104