Saga - 2004, Blaðsíða 197
Um þetta vitnar Hannes beint í Skírni og nefnir ekki að upplýsing-
arnar hafi hann úr bók Ólafs. Það er þó ljóst þar sem mislestur hjá
Ólafi gengur aftur í endursögn Hannesar. Í stað „góðra afreka“
Jakobs Jóh. Smára skrifar Ólafur „stórra afreka“ og eftir honum
Hannes. Þá skrifa þeir báðir s í staðinn fyrir z í „dulizt“ og „íslenzk-
ar“ og „bókmentir“ með tveimur n-um, auk þess sem þeir sleppa
tveimur orðum framan af beinu tilvitnuninni þar sem segir í frum-
heimild: „En samt getur engum dulizt það.“21
Þessi aðferð að fylla upp í megintexta bókarinnar, sem er ýmist
tekinn frá Halldóri Laxness eða Peter Hallberg, með öðrum textum
sem eru síðan fylltir upp með enn öðrum textum er megineinkenni
á vinnubrögðum Hannesar.
Þarna var kominn elsti kveðskapurinn
Peter Hallberg fjallar ekki um allra fyrstu verk Halldórs Laxness,
þau sem birtust í blöðum og tímaritum á árunum 1916 til 1918. Þar
er eyða í rannsóknum Hallbergs sem Hannes fyllir upp í með köfl-
um úr bók Ólafs Ragnarssonar, Halldór Laxness — Líf í skáldskap.22
Um það getur hann sjaldnast heimilda og gerir þar með frumrann-
sóknir Ólafs á þessu tímabili í höfundarverki Halldórs Laxness að
sínum.
Í bók sinni segir Ólafur frá því hvernig „ítarleg eftirgrennslan“
hafi leitt í ljós „að bernskuljóð Halldórs, merkt dulnefninu Snær
svinni“ hefðu birst undir fyrirsögninni „Ljóðmæli“ í Morgunblaðinu
13. júní 1916: „Þarna var kominn elsti kveðskapur Halldórs á prenti.“
(Bls. 102) Þrátt fyrir þá áherslu Ólafs að um frumrannsókn sé að
ræða vísar Hannes ekki til hans um þessi ljóð heldur beint í blaðið
eins og hann hafi gert rannsóknina sjálfur og fundið höfundinn á
bak við dulnefnið.23 Það sem hann birtir úr ljóðunum er þó augljós-
lega tekið úr bók Ólafs. Þetta má m.a. sjá af því að mislestur hjá Ólafi
M E Ð A L A N N A R R A O R Ð A 197
21 Jakob Jóh. Smári, „Ritfregnir“, Skírnir 1920, bls. 41–72. Umsögnin um Barn
náttúrunnar er á bls. 66 í syrpu um sjö bækur frá árinu 1919 á bls. 63–69. Ólaf-
ur vísar í bls. 63–66, og sama gerir Hannes.
22 Sjá Ólafur Ragnarsson, Halldór Laxness — Líf í skáldskap, bls. 73–121; Halldór,
bls. 65–83.
23 Dulnefnið Snær svinni sem höfundarnafn Halldórs kemur fyrst fram hjá Auði
Laxness í viðtali við Eddu Andrésdóttur, sbr. Á Gljúfrasteini. Edda Andrésdótt-
ir ræðir við Auði Sveinsdóttur Laxness (Reykjavík, 1984), bls. 277. Sbr. einnig
Ólafur Ragnarsson, Halldór Laxness — Líf í skáldskap, bls. 99–100.
Saga haust 2004 - NOTA 30.11.2004 11:33 Page 197