Saga - 2004, Page 204
reyndar ekki lesið vel. Í upphafi endursagnar sinnar segir Hallberg:
„Það er á Þorláksmessu“ (Vefarinn mikli I, bls. 43). Þessa fyrstu setn-
ingu grípur Hannes og yfirfærir á söguna alla. „Sagan gerist á Þor-
láksmessu“ (bls. 146), segir hann. Hið rétta er að hún gerist á að-
fangadagskvöld eins og líka titillinn „Jólakvæði“ á endurskoðaðri
útgáfu gefur til kynna. Í texta Hannesar er ráðist á skáldið með „bar-
efli“ (bls. 146), en í sögunni er hann bara sleginn og ekkert barefli að
sjá. Hjá Hallberg er ráðist á skáldið „með barsmíðum“ (Vefarinn
mikli I, bls. 44), og kann þar að vera komin skýringin á bareflinu. Hjá
honum skiptist orðið nefnilega á milli lína. Hannes hefur ekki lesið
yfir í næstu línu en botnað fyrripart orðsins með því sem honum
þótti sennilegt svo að úr „bar-smíðum“ Hallbergs varð „barefli“.
Ekki hefur Hannes heldur sett sig vel inn í söguna „Skáldið og
hundurinn hans“. Samkvæmt Hallberg gerist hún „í erlendri borg“
(Vefarinn mikli I, bls. 47) og það gerir hún einnig í endursögn Hann-
esar. Þetta er hins vegar misskilningur hjá Hallberg, því að sagan
gerist í Reykjavík. Þetta má m.a. sjá af staðarnöfnum eins og Aðal-
stræti (Nokkrar sögur, bls. 41), Tjörnin (bls. 54) og Skuggahverfi (bls.
55). Samt hefur Hannes skoðun á boðskap sögunnar sem honum
„virðist vera sá, að tryggð sé ekki að finna hjá mönnum, heldur mál-
leysingjum, skynlausum skepnum“ (bls. 147). Nákvæmlega það
sama má lesa hjá Hallberg (bls. 49).
Öll vitneskja Hannesar um „Rauða kverið“, óprentað handrit
sem Halldór samdi 19 ára, er fengin úr ítarlegri rannsókn Hallbergs
(sbr. Vefarinn mikli I, bls. 59–91), án þess að þeirrar heimildar sé get-
ið. Hér notar Hannes sem endranær þá aðferð að taka setningar, og
stundum heilu klausurnar, héðan og þaðan úr textanum, og bræða
saman í samhengislausa heild. Beinar tilvitnanir og ályktanir sem af
þeim eru dregnar umorðar hann og styttir. Þannig verður „undarleg
hugsýn framtíðarríkis“ (bls. 82) að „kynlegri framtíðarsýn“ (bls.
189) í texta hans og áhrifum Tolstojs, Rousseaus og Strindbergs sem
Hallberg ræðir á tveimur stöðum (bls. 68–70) er skellt saman í eina
setningu: „Þessi orð eru bergmál frá Tolstoj, en einnig má sjá greini-
leg áhrif Rousseaus og Strindbergs“ (bls. 189).36
H E L G A K R E S S204
36 Þannig slær Hannes gjarnan um sig með kenningum sem hann hefur frá öðr-
um. Á bls. 182–184 fjallar hann t.a.m. um kenningar Ottos Weininger og vitn-
ar um þær beint í rit hans Geschlecht und Character. Það hefur hann þó allt
meira eða minna orðrétt úr riti Hallbergs, Vefarinn mikli II, bls. 64–67. Ekki get-
ur hann þeirrar heimildar.
Saga haust 2004 - NOTA 30.11.2004 11:33 Page 204