Saga - 2004, Page 230
landaura á landinu öllu. Samtímis má greina frá að höfundur hefur í fórum
sínum efni sem ekki fékk rúm í bókinni en sem mér finnst vera mjög spenn-
andi, eins og mismunur á verðlagi eftir héruðum og hlutfallsleg verðþróun
útflutnings og innflutnings. En allt stendur þetta til bóta á rafrænan hátt.
Eins og segir í upphafi þessa ritdóms er bók þessi fyrst og fremst mjög
tímafrekur útreikningur tölfræðilegra heimilda. Það er ekki meginmarkmið
höfundar að skýra eða túlka atvinnusöguna með tilgátum eða kenningum.
Bókin er því fyrst og fremst vandlega unnin heimildaútgáfa sem auðveld-
ar aðgang að verðmætum frumheimildum verðlagsskránna.
Gísli Gunnarsson
Helgi Skúli Kjartansson og Steinþór Heiðarsson, FRAMTÍÐ HAND-
AN HAFS. VESTURFARIR FRÁ ÍSLANDI 1870–1914. Sagnfræðirann-
sóknir 17. Ritstj. Gunnar Karlsson. Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands
og Háskólaútgáfan. Reykjavík 2003. 176 bls. Töflur og skýringar-
myndir. Útdráttur á ensku. Heimildaskrá. Nafna- og hugtakaskrá.
Íslenskir vesturfarar voru geymnir á frásagnir um afdrif íslenska þjóðar-
brotsins í Vesturheimi. Greinar um þá og landnám þeirra voru eitt helsta
efni almanaks sem Ólafur S. Thorgeirsson hóf að gefa út í Winnipeg 1894.
Kom það út fram á sjötta áratug síðustu aldar og er náma fróðleiks um menn
og málefni. Eins og útgefanda var fullljóst voru greinar þær sem almanakið
birti einvörðungu safn til sögu vesturfaranna. Sama má segja um rit eins og
þau sem feðginin Þorleifur og Þorstína Jackson settu saman um landnám á
Nýja-Íslandi (1919–1923) og í Norður-Dakota (1926). Útvarpserindi Þor-
steins Þ. Þorsteinssonar, sem hann gaf út á bók árið 1935 og kallaði Vestmenn,
svo og Saga Íslendinga í Vesturheimi, sem hann skrifaði þrjú fyrstu bindin af
(1940–1945), eru einnig fróðleiksnámur um vesturferðirnar, upphaf þeirra
og orsakir, og einstaklingana sem fóru, en þetta eru ekki sagnvísindi.
Hér á landi var vesturfarasögunni lengi sýnt mikið tómlæti þrátt fyrir
að flestir landsmenn ættu ættingja, venslafólk, vini eða kunningja sem
höfðu hleypt heimdraganum. Ástæðurnar voru vafalaust helst þær að
menntamenn voru í broddi fylkingar þeirra sem gagnrýndu brottflutning-
ana mest og ásökuðu vesturfarana um skort á þjóðhollustu. Allt fram á síð-
ari hluta 20. aldar var varla vikið að því í sögukennslu í skólum að um 20%
þjóðarinnar fluttu vestur um haf á tímabilinu 1870–1914, jafnvel þótt nokk-
ur grein væri gerð fyrir brottflutningunum í sögukennslubókunum sjálf-
um. Engu síður hafði Stephan G. Stephansson verið leiddur á fremsta bekk
íslenskra skálda af Vökumönnunum Guðmundi Finnbogasyni, Sigurði
Nordal og Þorkatli Jóhannessyni og Þorkell hafði lagt ómælda vinnu í að
koma verkum skáldsins í bundnu og óbundnu máli á framfæri hér á landi.
R I T D Ó M A R230
Saga haust 2004 - NOTA 30.11.2004 11:34 Page 230