Morgunblaðið - 19.10.2017, Blaðsíða 77
eins og þú værir tekinn alltof
fljótt frá okkur öllum, þykir mér
mjög óréttlátt.
Ég man að mér þótti það tals-
verð áskorun fyrst þegar þú
komst til okkar Antons míns í
mat, þú matreiðslumeistarinn
sjálfur. En þú tókst ávallt vel til
matar þíns svo ég veit að ég stóð
mig vel í matargerð og veislu-
höldum og það skipti mig miklu
máli.
Sonum þínum, tengdadætrum
og barnabörnum, ásamt öllum
þínum nánustu, sendi ég mínar
innilegustu samúðarkveðjur.
Sorg okkar allra er mikil og ekki
síst elsku Mömmu þinnar og
tengdamóður minnar, að missa
barn sitt er öllum mjög þung-
bært óháð aldri. Megi góður
Guð vera huggun í sorg okkar
allra sem þótti vænt um þig og
munu sakna þín mjög. Kveð þig
nú með sömu orðum og ég
kvaddi þig kvöldið áður en þú
kvaddir þennan heim; sjáumst
síðar.
Þú varst hraustur, þjáning alla
þoldir þú og barst þig vel,
vildir aldrei, aldrei falla:
Uppréttan þig nísti hel.
Þú varst sterkur, hreinn í hjarta,
hirtir ei um skrum og prjál;
aldrei náði illskan svarta
ata þína sterku sál.
(Matthías Jochumsson)
Þín mágkona,
Hjördís.
Hann var afskaplega góður
vinur og ég mun sakna hans
skelfilega mikið.
Þinn ameríski bróðir,
Timothy J. Gerbracht,
Ellen og fjölskylda.
„Eigi má sköpum renna.“ Nú
hefur hún elskulega Svana mín
kvatt þetta líf eftir erfiða bar-
áttu við krabbamein. Hún var
svo lífsglöð og lengst af vongóð
um að sigrast á þeim vágesti
sem hafði betur að lokum.
Svana var tíu ára þegar fund-
um okkar bar saman haustið
1949. Móðir hennar, Unnur Pét-
ursdóttir, kom sem ráðskona til
föður míns og með Svönu með
sér. Þá var Unnur nýbúin að
missa mann sinn, Þorbjörn Ei-
ríksson. Þau höfðu búið í Kamb-
seli í Álftafirði og áttu fjögur
börn, Sigríði, Ragnheiði, Eirík
og Svönu sem var yngst. Eldri
börnin voru í skólum víðs vegar
um landið. Svana var fljót að að-
lagast þorpslífinu og eignaðist
vini, suma fyrir lífstíð. Þar sem
ég var lítið heima í föðurhúsum
kynntumst við ekki náið fyrr en
á fullorðinsárum.
Svana fór 17 ára í Húsmæðra-
skólann á Ísafirði og var þar
einn vetur. Þar kynntist hún
ungum manni, Arinbirni Arin-
bjarnarsyni, sem síðar varð eig-
inmaður hennar. Ungu hjónin
komu sér upp heimili á Ísafirði
og bjuggu þar í allmörg ár. Þau
eignuðust tvær indælar dætur,
Birnu og Eddu. Svana og Arin-
björn fluttu síðar til Hafnar-
fjarðar. Þegar dæturnar voru
uppkomnar slitu þau hjónin
samvistum.
Svana vann árum saman í fyr-
irtækinu Gunnars majónes, hún
var þar verkstjóri og kom sér
vel. Um það leyti hitti hún Þor-
stein Þorsteinsson, sem varð
seinni maður hennar. Þau áttu
mörg góð ár saman. Þorsteinn
lést fyrir 20 árum. Eftir það bjó
Svana ein og var dugleg að
rækta vinasamband við ættingja
og venslafólk. Hún var mikill
gleðigjafi, alltaf jákvæð og tilbú-
in að rétta hjálparhönd ef ein-
hver þurfti þess með. Það mynd-
aðist með okkur kærleiksríkt
samband og eignaðist ég þar
systurina sem ég alltaf hafði
þráð að eiga.
Ég þakka elsku Svönu fyrir
allar glaðar og góðar stundir og
bið góðan guð að blessa alla af-
komendur hennar.
Guðrún Einarsdóttir.
MINNINGAR 77
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 19. OKTÓBER 2017
✝ Þorbjörg Guð-mundsdóttir
fæddist á Korpúlfs-
stöðum í Mosfells-
sveit 16. janúar
1920. Hún lést á
hjartadeild Land-
spítalans 12. októ-
ber 2017.
Foreldrar henn-
ar voru hjónin
Bjarnveig Guðjóns-
dóttir og
Guðmundur Þorláksson á Selja-
brekku í Mosfellssveit. Systkini
hennar voru Þorlákur, f. 1921,
d. 2007; Málfríður, f. 1923, d.
1986; Valgerður, f. 1924, d.
2005; Guðrún, f. 1925, d. 2000,
og Ástríður, f. 1930, d. 2007.
Eiginmaður Þorbjargar var
Ingvar Axelsson úr Hörgárdal í
ir að þau voru bæði látin hjá
föðursystur sinni, Guðrúnu Þor-
láksdóttur, í Reykjavík. Hún
hóf skólagöngu í Austurbæj-
arskóla níu ára gömul, árið sem
skólinn tók til starfa, en þá var
skólaskylda frá 10-14 ára ald-
urs. Eftir það fór hún í Mennta-
skólann í Reykjavík og lauk
þaðan 1. og 2. bekk. Þorbjörg
vann margvísleg störf um æv-
ina bæði innan heimilis og utan
en lengstur var starfsferill
hennar á gjörgæsludeild Borg-
arspítalans í Fossvogi.
Þorbjörg og Ingvar hófu bú-
skap í Njarðvíkum og fluttu
þaðan að Mosfelli í Grímsnesi
og ráku þar bú í tvö ár. Þau
byggðu sér hús að Selvangi í
landi Seljabrekku en bjuggu
lengst á Grettisgötu 61 og í
Drápuhlíð 21. Fyrir þrettán ár-
um flutti Þorbjörg á Snorra-
braut 56b og bjó þar til dauða-
dags.
Útför Þorbjargar fer fram
frá Lágafellskirkju í dag, 19.
október 2017, klukkan 13.
Eyjafirði, f. 28.
október 1923, d.
29. júlí 1994. Þau
gengu í hjónaband
30. mars 1946.
Börn þeirra eru:
Gunnar, f. 1941,
kona hans er Gun-
illa Ingvarsson, f.
1949; Kristbjörg
Ásta, f. 1946, mað-
ur hennar er Per
Ekström, f. 1953;
Bjarnveig, f. 1955, maður henn-
ar er Magnús Valur Jóhannsson
f. 1954. Barnabörnin eru 12,
langömmubörnin 22 og eitt
langalangömmubarn.
Fyrstu árin ólst Þorbjörg
upp hjá föðurforeldrum sínum,
Þorláki Sigurðssyni og Krist-
björgu Guðmundsdóttur, og eft-
Mamma og tengdamamma er
farin í sumarlandið. Hún náði að
verða 97 ára gömul og var að
nálgast 98 ára afmælið. Hún var
mjög ern og klár alveg fram að
síðustu mínútu. Það var hægt að
ræða við hana um kosningarnar
sem eru fram undan og hún
hafði ákveðnar skoðanir á þeim
sem eru í framboði, hún las blöð-
in og fylgdist með kosningasjón-
varpinu.
Hún hafði afar gott minni
þrátt fyrir háan aldur og gat
miðlað lífsreynslu sinni og minn-
ingum um liðna tíð á aldarlangri
ævi. Bara nokkrum dögum áður
en hún fór var hún að fara með
Skúlaskeið utanbókar, ljóð sem
hún hafði lært í barnaskóla.
Að vera fædd rétt eftir fyrri
heimsstyrjöldina og vaxa úr
grasi á millistríðsárunum var
sannarlega ekki auðvelt og allt
annar heimur en við nútímafólk-
ið höfum upplifað. En henni
tókst að komast í gegnum það
allt og hún fékk að upplifa tækni
21. aldar og gat t.d. fyrir örfáum
dögum talað við ættingja í út-
löndum í myndsíma.
Afmælisdagar voru vel skráð-
ir í bókinni og mátti aldrei missa
af fjölskylduhefðum eins og
skötuveislunum, laufabrauðsút-
skurðunum, gamlárskvöldunum
o.s.frv. Við munum halda þeim
hefðum áfram.
Að fara í lagningu hálfsmán-
aðarlega var alltaf á dagskrá og
meira að segja þá kom hár-
greiðslukonan hennar á spítal-
ann örfáum dögum fyrir andlátið
til að leggja á henni hárið. Útlit-
ið skyldi alltaf vera í lagi.
Á hennar löngu lífsgöngu
hafði hún náð ævitindinum en þá
fyrst byrjar fjallgangan.
Kristbjörg Ásta
Ingvarsdóttir
Per Ekström.
Þorbjörg tengdamóðir mín er
nú látin á nítugasta og áttunda
aldursári. Eftir yfir fjörutíu ára
samveru lýkur einstöku tímabili
í lífi manns en eftir standa minn-
ingar um góða konu.
Þorbjörg fæddist á því herr-
ans ári 1920 og hafði því upplifað
miklar samfélags- og tækni-
breytingar á lífsferli sínum, allt
frá því að strokka smjör yfir í
tilraun til að ráða við snjallsím-
ann. Ekki var óalgengt í fortíð-
inni og fram á fyrri hluta 20. ald-
ar að börn ættu þess ekki kost
að alast upp hjá foreldrum sín-
um vegna aðstæðna á þeim tíma.
Þorbjörg fór ekki varhluta af
því. Hún ólst upp hjá föðursyst-
ur sinni við gott atlæti og um-
hyggju en hélt þó nánum
tengslum við foreldra sína og
systkini. Ung var hún send í
sveit til sumardvalar vestur í
Arnarfjörð, nánar tiltekið að
Skógum í Mosdal, en þar var þá
enn stundaður óvélvæddur
sjálfsþurftarbúskapur eins tíðk-
ast hafði um aldir. Þorbjörg
minntist þess tíma ætíð með
þakklæti og gleði í huga. Aldrei
fannst henni þar skorta á nokk-
urn hlut þrátt fyrir fábreyttan
búskap. Að alast upp við þessar
aðstæður markar hugarfar til
frambúðar. Þó að Þorbjörg hafi
ekki neitað sér um ýmis þau lífs-
gæði sem nýir tímar og betri
efnahagur buðu upp á viðhélt
hún ætíð þeim eiginleika að nýta
hluti vel og fannst sumum nóg
um. Þó að ekki sjái enn fyrir
endann á neysluhyggju liðinna
áratuga virðist sem maðurinn sé
nú að átta sig á nauðsyn þess að
snúa að nokkru leyti til baka til
fyrri viðhorfa um nýtni og end-
urnýtingu. Fyrir Þorbjörgu var
það sjálfsagt mál.
Þegar ég tengdist fjölskyldu
Þorbjargar var mér strax tekið
vel af þeim hjónum, Þorbjörgu
og Ingvari. Þau höfðu mjög
þægilega nánd og því var nota-
legt að eiga með þeim samveru
enda liðu ekki oft margir dagar
án einhverra samskipta okkar
hjóna og barnanna okkar við þau
og síðar við Þorbjörgu eftir að
Ingvar dó, allt of snemma, 1994.
Þorbjörg var vel gefin kona,
víðlesin og einstaklega minnug.
Til hennar var hægt að sækja
mikinn fróðleik. Hún var stolt
kona, hafði ákveðnar skoðanir á
hlutunum og gat verið föst á
sinni meiningu. Hún var ætt-
móðirin og tók það hlutverk al-
varlega. Henni var umhugað um
hag afkomendanna og gætti
þess vel að halda fjölskyldunni
saman. Frændrækin var hún og
hélt góðu sambandi við skyld-
menni sín og Ingvars. Þau hjón
voru félagslynd og eignuðust
marga vini í gegnum tíðina og
var henni umhugað um að halda
góðu sambandi við þá.
Það var lærdómsríkt að fylgj-
ast með Þorbjörgu síðustu árin,
kominni á tíræðisaldur. Lífsvilj-
inn var einstakur þrátt fyrir að
hægt og bítandi hafi dregið úr
líkamlegum þrótti, en andlegu
atgervi hélt hún fullkomlega
fram á síðustu stundu. Hún leit
ekki á sig sem aldraða, hélt
sjálfstæði sínu alla tíð og var
aldrei á því að gefast upp fyrir
Elli kerlingu. Ætlaði sér að
dvelja á eigin heimili meðan
stætt væri og það tókst henni.
Spítalalegan varð stutt, en ég
held að hún hefði alveg viljað lifa
lengur.
Magnús Valur Jóhannsson.
Elsku amma.
Nú þegar við setjumst niður
og minnumst þín er það okkur
efst í huga hve mikið við elsk-
uðum þig og hversu mikilvæg þú
varst í uppeldi okkar, það má
segja að þú hafir verið klett-
urinn í lífi okkar.
Við erum óendanlega þakk-
látar fyrir að þú varst valin til
þess að vera amma okkar. Þú
varst alltaf til staðar ef eitthvað
bjátaði á og ekki gleymdir þú af-
mælisdögunum þó að við værum
allnokkur barnabörn að viðbætt-
um barnabarnabörnum og
barnabarnabarnabarni. Það seg-
ir allt um þig og afa hvernig þið
hélduð utan um mömmu þegar
foreldrar okkar skildu, á sama
hátt tókuð þið yngri börnunum
eins og ykkar eigin barnabörn-
um.
Þeir sem kynntust þér kom-
ust ekki hjá því að sjá að hér fór
vel gefin og vel lesin kona sem
ekki lá á skoðunum sínum, sér-
staklega þegar kom að lands-
málunum og pólitíkinni, enda
varst þú búin að gera upp hug
þinn varðandi næstu kosningar.
Elsku amma okkar, þú varst al-
veg einstök í okkar huga og ef
við ættum lýsa þér í fáum orðum
væri það helst hreinskilin, um-
hyggjusöm og ekki síst fordóma-
laus. Við getum nú huggað okk-
ur við að afi tekur vel á móti þér
og þið eruð saman á ný.
Við úr fjarlægð, elsku amma mín
með ást og virðing hugsum nú til þín.
Og kveðjuorð í fáum ljóðalínum
við leggjum nú að kistuþjölum þínum.
Á öllum sviðum vildir okkur vel
og vafðir okkur í þitt kærleiks þel
jafnt á hausti, vetri, sumri og vori
og vaktir yfir hverju okkar spori.
Svo vertu blessuð elsku amma kær
í okkar hjörtum þakkarblómið grær.
Þú góða hlýtur umbun elsku þinnar
í eilífbjörtu landi dýrðarinnar.
(Kristján Eyfjörð.)
Takk fyrir allt, amma.
Kær kveðja frá Elberg og Jó-
hönnu Steinunni.
Fyrir hönd fjölskyldna okkar,
þínar sonardætur
Guðrún Rósa, Þorbjörg
og Gunnhildur Ásta.
Nú hefur loginn hennar
ömmu slokknað. Þrátt fyrir
nokkrar innlagnir á spítala í
seinni tíð stóð hún alltaf aftur
upp keik og fór heim, enda vilja-
styrkurinn og þrjóskan með ein-
dæmum mikil. En í þetta skipt-
ið, eftir næstum því 98 ár, var
líkaminn tilbúinn að játa sig
sigraðan og segja þetta gott. Að
hennar njóti ekki lengur við er
þungbært enda var hún svo
ótrúlega fastur punktur í tilver-
unni. Að geta ekki lengur komið
við á Snorrabrautinni á leiðinni
heim og spjallað við hana um
pólitík, allt eða ekkert, eða bara
skutlað henni í lagningu, er ekki
lengur hluti af lífinu. Það mun
taka tíma að venjast.
Ég bjó hjá ömmu á fyrsta
árinu í Háskólanum, þá bund-
umst við sterkum böndum.
Vissulega var umhyggju- og af-
skiptasemi hennar ungum há-
skólanemanum stundum um
megn en ég er þakklát fyrir að
hafa átt þennan tíma með
ömmu, við vorum góðar saman
og studdum hvor aðra.
Núna þegar ég minnist ömmu
er þakklæti mér efst í huga,
þakklæti fyrir það að hafa fengið
að hafa hana inni í hversdags-
leikanum. Hún var svo stór hluti
af barnæskunni, unglingsárun-
um, fullorðinsárunum og svo lífi
litlu barnanna minna. Ég fékk
oft að heyra það þegar ég kom
ein í heimsókn að næst mætti ég
nú hafa drengina með. Þótt sá
yngri eigi ekki eftir að muna eft-
ir langömmu sinni og minningar
þess eldri dvíni mun ég segja
þeim sögur af henni og því
hvernig hún ljómaði þegar þeir
gægðust inn um dyrnar hjá
henni.
Amma var aldrei langt undan,
ekkert var henni óviðkomandi.
Þegar ég hugsa til baka hrann-
ast inn góðar minningar í
tengslum við það, margar þeirra
geyma hrós og hvatningu frá
ömmu. Mikið naut ég þess sem
barn og það breyttist nú ekkert
þar sem árin liðu, örugglega
nokkuð hlutdrægt í sumum til-
fellum, en þessi hvatning hafði
góð áhrif fram á síðasta dag.
Afi Ingvar fór langt á undan
ömmu, 23 árum fyrr, þá var ég
13 ára. Ég minnist þessa dags
enn með miklum trega, enda
hvarf afi á braut svo snemma og
það var ömmu mjög erfitt. Að
vera umvafin stórfjölskyldunni
sinni gaf ömmu mjög mikið, fjöl-
skyldan var henni vissulega allt.
Hvíl í friði, elsku amma, og
takk fyrir allt.
Edda Elísabet.
Það er með miklum söknuði
sem ég kveð í dag ömmu mína
en um leið get ég ekki annað en
samglaðst henni með að hafa
getað lifað með reisn fram á síð-
asta dag á sínu eigin heimili. Þó
að líkaminn væri að gefa eftir
síðustu ár var kollurinn alltaf í
lagi, alveg til síðasta dags. Nú er
hún komin í faðm ástvina sem
hún hefur horft á eftir um langt
skeið enda sagði hún gjarnan:
„Það sem er leiðinlegast við að
verða svona gömul er að allir
vinir og samferðamenn eru farn-
ir og ég hef engan lengur til að
ræða við um gamla tíma.“
Það hefur örugglega verið
magnað að lifa þá tíma sem
amma gerði og upplifa einar
mestu breytingar sem orðið hafa
á íslensku samfélagi frá byrjun.
Hún fæddist 1920, sem er rétt
eftir að fyrri heimsstyrjöld lauk
og Íslendingar að koma úr torf-
bæjunum. Hún talaði oft um
þessar breytingar og þegar talað
var um kreppu eftir fjármála-
hrunið 2008 sagði hún alltaf:
„Þetta er engin kreppa, fólk veit
ekki hvað kreppa er.“
Ég á eftir að sakna fjörlegra
skoðanaskipta um dagleg mál og
ótal símtala þar sem leyst var úr
flóknum sjónvarpsfjarstýring-
um, skipulagt skutl í hárgreiðslu
eða önnur viðvik sem var hægt
að hjálpa henni með. Amma var
mjög pólitísk og hafði sterkar
skoðanir á þjóðmálum en hafði
alltaf opinn hug fyrir þeim þjóð-
félagsbreytingum sem heimur-
inn er að fara í gegnum.
Ég tel mig ótrúlega heppinn
að hafa átt ömmu eins og Bobbu
og að vera alinn upp fyrstu ár
ævi minnar hjá ömmu og afa, en
það mótar mann auðvitað fyrir
lífstíð. Ógleymanlegur tími á Ár-
bæjarsafni þar sem afi vann sem
umsjónarmaður, árin á Sólvalla-
götu þar sem garðarnir voru æv-
intýraheimur fyrir krakka og
síðan á Grettisgötunni þaðan
sem ég á sterkar minningar,
enda vinsæll viðkomustaður fyr-
ir alla fjölskylduna. Amma var á
þessum árum heimavinnandi
húsmóðir eins og algengt var þá
og því var alltaf hægt að koma
heim þegar svengdin kallaði og
jafnvel að taka alla vinina með.
Þá fengu allir mjólkurglas og
köku og gátu farið aftur út að
leika.
Margar góðar minningar
koma upp í hugann á þessum
tímamótum, minningar um
sterka konu sem hafði mikil
áhrif á alla sem þekktu hana.
Hún var alltaf jákvæð og bjart-
sýn, sem örugglega hefur hjálp-
að henni í gegnum lífið og jafn-
vel að ná þessum háa aldri.
Amma var eins og alfræðirit,
hún mundi alla hluti og það var
gaman að leita til hennar eftir
svörum. Sama var hvort spurt
var um gamla tíma, fjarskylda
ættingja eða minnistæða at-
burði, aldrei kom maður þar að
tómum kofanum. Hún mundi
texta vel og gat farið með heilu
kvæðin og lagatexta orðrétt.
Amma var sannkölluð ættmóðir
og fylgdist alltaf vel með sínu
fólki og hafði mikinn áhuga á að
vita hvernig afkomendum og
skyldfólki gekk í lífinu.
Nú er hún amma mín vonandi
búin að hitta hann afa aftur, en
það eru orðin heil 23 ár síðan
hann kvaddi okkur frekar
snögglega. Það voru forréttindi
að fá að hafa hana öll þessi ár,
en hún hefði orðið 98 ára núna í
janúar. Þrátt fyrir það er erfitt
að setja niður minningarorð til
að lýsa þessari merkilegu konu
og góðum vini. Takk fyrir allt,
amma mín.
Birgir Þór Ómarsson.
Í dag kveð ég elsku ömmu
mína, Þorbjörgu Guðmundsdótt-
ur, með söknuð í hjarta. Amma í
Drápuhlíð, eins og hún var alltaf
kölluð af okkur systkinunum,
var stór hluti af mínu lífi og vor-
um við miklar vinkonur. Amma
var einstaklega vel lesin og fróð
kona og var alltaf gaman að
spjalla við hana um heima og
geima. Það skipti ekki máli
hvert umræðuefnið var, stjórn-
mál, gamli tíminn, fjölskyldan
eða þjóðmál. Mínar bestu minn-
ingar frá ömmu eru bækurnar
hennar og afa. Það var algjör
fjársjóður og sökkti ég mér í
lestur alls konar bókmennta.
Það voru þjóðsögur, barnabæk-
ur, bækur um Ísland og ýmiss
fróðleikur sem heilluðu litla
stelpu. Mér er minnisstæð bókin
Málleysingjarnir eftir Þorstein
Erlingsson, sem er ýmis ævin-
týri um dýrin. Amma hafði mikið
dálæti á Þorsteini Erlingssyni
og talaði oft um hann og um
hversu mikill dýravinur hann
hafði verið. Agatha Christie var
einnig í miklu uppáhaldi hjá
ömmu og hún átti næstum því
allar bækurnar hennar. Eftir því
sem ég eltist minnkaði ekki
áhugi minn á bókunum hennar
ömmu heldur breyttist kannski
áhugasviðið. Á heimilinu voru
bækur eftir mörg helstu ís-
lensku skáldin, eins og Halldór
Laxness, Þórberg Þórðarson,
Davíð Stefánsson og fleiri.
Amma batt inn bækur í frístund-
um sínum og var með vinnu-
herbergi í Drápuhlíðinni sem
mér fannst einstaklega
skemmtilegt að rannsaka og fá
tækifæri til að fylgjast með ferl-
inu þegar hún batt inn bækurn-
ar.
Það var alltaf gott að koma til
ömmu og gat ég verið tímunum
saman þar. Hún tók manni alltaf
með opnum örmum og vildi allt
fyrir mann gera og það breyttist
ekkert þótt hún væri orðin
nærri því 100 ára. Síðustu ár hef
ég búið með fjölskyldu minni í
Kaupmannahöfn og hef ég því
ekki hitt ömmu eins og oft og ég
var vön. Við héldum samt alltaf
sambandi í gegnum símann og á
ég eftir að sakna þess að geta
ekki hringt í ömmu og spjallað.
Elsku amma, ég á eftir að sakna
þín óskaplega mikið en ég er
heppin að hafa allar þessar góðu
minningar til að ylja mér við. Ég
kveð þið með þessu fallega ljóði
eftir Þorstein Erlingsson.
Þér frjálst er að sjá, hve ég bólið mitt
bjó,
ef börnin mín smáu þú lætur í ró.
Þú manst, að þau eiga sér móður.
Og ef að þau lifa, þau syngja þér söng
um sumarið blíða og vorkvöldin löng.
Þú gerir það, vinur minn góður.
Svala Birna Magnúsdóttir.
Þorbjörg
Guðmundsdóttir