Tímarit Máls og menningar - 01.06.2015, Page 30
30 TMM 2015 · 2
Guðni Tómasson
Heiðurslaun listamanna
– gamall arfur eða hreyfiafl listarinnar?
Sú var tíðin að fjárlög ríkisins höfðu að geyma, aftarlega í lagatextanum,
langa lista með mannanöfnum. Við hvert nafn voru upphæðir í krónum
og aurum sem sögðu fyrir um hvað viðkomandi skyldi hafa í laun, eftir-
laun eða styrk frá ríkinu það árið. Þarna voru ýmsir embættismenn, t.d.
prestar, kennarar, landpóstar, ljósmæður og vitaverðir en einnig ekkjur
fyrrum embættismanna. Listamenn, í fyrstu aðeins skáld og rithöfundar,
fóru að birtast á þessum listum snemma á tíunda áratug 19. aldar. Síðan
þá hefur íslenska ríkið alltaf stutt við listsköpun nokkurs hóps listamanna.
Sá stuðningur hefur ýmist farið fram með beinum greiðslum eða í gegnum
umsóknarferli, nýtilkomna verkefnasjóði listgreinanna eða það sem við
köllum í dag listamannalaun en ættu frekar að heita starfslaun listamanna.
Þar er nefnilega um að ræða samkeppnissjóði með jafningjamati og val
faglegra úthlutunarnefnda sem endurnýjaðar eru reglulega.
Í dag eru áðurnefndir nafnalistar í fjárlögum að mestu horfnir. Þó má í
viðauka fjárlaga hvers árs finna stuttan lista yfir nöfn þeirra listamanna sem
njóta heiðurslauna listamanna sem Alþingi ráðstafar árlega. Það er á könnu
allsherjar- og menntamálanefndar þingsins að taka ákvörðun um það hvort
fjölga eigi listamönnunum í þessum merka hópi. Samkvæmt lögum um
heiðurslaun frá 2012 má hópurinn þó aðeins telja 25 einstaklinga á hverjum
tíma en nú er þar að finna 23 nöfn.
Því má halda fram að heiðurslaun listamanna séu veigalítill og heldur
afskiptur hluti menningarstjórnmála á Íslandi. Árleg úthlutun heiðurslauna fær
yfirleitt minni athygli í fjölmiðlum en úthlutun listamannalauna. En þá sjaldan
að heiðurslaunin ber á góma í umræðunni er ljóst að fyrirkomulagið er nokkuð
umdeilt, ekki síst sú staðreynd að þingmenn taka að sér fagurfræðilegt mat í
þessum efnum og oft hefur glitt í að pólitískir flokkadrættir hafi áhrif á valið.
Hér er ætlunin að rekja tilkomu og sögu heiðurslauna, fjalla um nokkuð
óljósan tilgang þeirra og tæpa á þeim vandræðagangi sem einkennt hefur
valið alla tíð. Í grein í næsta hefti Tímaritsins verður fjallað um hugmyndir
um akademíu listanna sem eru bæði gamlar og nýjar af nálinni. Þá verður
einnig horft til erlendra dæma um heiðurstyrki til listamanna og mögulegar
breytingar á núverandi fyrirkomulagi kannaðar.