Tímarit Máls og menningar - 01.06.2015, Blaðsíða 57
TMM 2015 · 2 57
Böðvar Guðmundsson
Tilurð og örlög tveggja ljóða
og afdrif höfunda þeirra
Þessi hugleiðing var upphaflega samin sem kveðja til góðra vina en alls ekki
ætluð til birtingar annars staðar en í tölvupósti til þeirra. Hún ber þess líka
merki, hvergi var hirt um að tilgreina heimildir eins og vandi er góðra fræði-
manna. Ég fer heldur ekkert að breyta því nú, þegar afráðið er að greinin komi
í TMm. Þeir sem efa að ég fari með rétt mál verða því sjálfir að hafa fyrir því
að finna heimildirnar, enda er greinin meira í ætt við ritgerð en fræðigrein þótt
auðvitað sé allt rétt sem í henni stendur. Annaðhvort væri nú. Þegar hún barst
vinum mínum bentu mér nokkrir á staði þar sem ég annaðhvort hafði mis-
skilið eða farið rangt með nema hvort tveggja væri. Góðar leiðbeiningar þeirra
hef ég fært inn og þakka þeim öllum fyrir. Tvær ljóðaþýðingar fylgja með,
hvorug betri en hin og hvorug betri en mér er unnt. Ég valdi þá þýðingaraðferð
sem sumum finnst ófær, að reyna að fylgja „anda frumtextans“ á kostnað
nákvæmninnar. Ég læt þó lausamálsþýðingar mínar fylgja með báðum ljóð-
unum í þessari hugleiðingu og birti svo þýðingarnar sjálfar í lokin.
Tilviljunin sem ræður lífi okkar olli því að mér var uppálagt að þýða á
íslensku tvö þýsk ljóð. Um hvorugt hafði ég hugsað í alvöru áður og því fór ég
að skoða sögu þeirra og ekki síst að safna að mér fróðleik um höfunda þeirra.
Gamaldags bókmenntafræði sem hæfir aldri mínum, vitsmunum og smekk.
Það er alkunna að baráttufólk fyrir einhverri ákveðinni skoðun eða
hreyfingu vitnar oft í bókmenntir eins og þar sé sjálfan stórasannleik að
finna sem jafnframt réttlæti baráttu þess og málstað.
Þannig eru bókmenntaverk oft notuð og því miður oftar en ekki misnotuð.
Annað þessara þýsku ljóða var misnotað á óhuggulegan hátt, hitt var notað
á enn óhuggulegri hátt. Túlkunarmöguleikarnir eru óteljandi, því miður
þegar illa tekst til, sem betur fer þegar frjó hugsun fær frelsi til að glíma við
þann Golíat sem ljóðtexti getur verið.
Stundum heyrast raddir sem segja að bókmenntirnar eigi að vera
ópólitískar, skáld og rithöfundar eigi að einbeita sér að þeim þremur þáttum
mannlegrar tilveru sem mestu máli skipta, lífinu, dauðanum og ástinni.
Stjórnmálafólkið skuli sjá um það sem minna máli skiptir svo sem eins og
heilsu, menntun, matvæli, fatnað og húsnæði!