Tímarit Máls og menningar - 01.06.2015, Blaðsíða 36
G u ð n i Tó m a s s o n
36 TMM 2015 · 2
Þarna er því á ferðinni tilraun til eins konar tekjutengingar og vilji til að
meta það inn í jöfnuna hve gríðarlega mismunandi aðstæður listamanna geta
verið þegar að fjárhag kemur, en rúmur fjárhagur einstakra listamanna sem
hlotið hafa heiðurslaun hefur á stundum vakið upp umræðu í þjóðfélaginu.
Tekjutenging heiðurslauna hefur aldrei komist á og ekki verður auðveldlega
séð hvernig hefði átt að meta þessi atriði við umræðulausa afgreiðslu
þingsins. Ekki eru atriðin heldur líkleg til að hafa slegið að ráði á deilur þing-
manna um launin. Notkunin á orðinu „arðbær“ vekur líka athygli en erfitt
hefði reynst að meta umræðulaust þann markaðsbrest, sem listamenn búa
stundum við, ef frumvarpið hefði orðið að lögum. Í frumvarpi Gunnars var
jafnframt gert ráð fyrir að laun megi taka af þeim listamönnum sem hverfa
úr landi, „nema til þess sé að geta betur stundað list sína í íslenzka þágu, og
metur ráðherra það.“ Þetta verður að teljast nokkuð matskennt ákvæði sem
sýnir vel hversu grunnt er á nytjahyggjusjónarmiðum í stjórnmálaumræðu
um listir á Íslandi á öllum tímum. Íslenskar listir eru fyrst og fremst ætl-
aðar landsmönnum og þeim er ætlað að vera „í íslenzka þágu“, styðja við
þjóðernið, sjálfstæði og sjálfsmynd þjóðarinnar.
Lög um listamannalaun voru ekki sett fyrr en árið 1967 en þá hafði Alþingi
veitt fé til starfa listamanna áratugum saman. Ákvæði laganna um heiðurs-
laun voru heldur rýr, en Alþingi gat samkvæmt 1. grein laganna „bæði veitt
tilteknum listamönnum ákveðin heiðurslaun og veitt að auki í þessu skyni
eina upphæð, sem síðan skal skipt af nefnd sjö manna, kosinni af sameinuðu
Alþingi að afloknum alþingiskosningum.“23 Þar með var lögfest það fyrir-
komulag sem komst á þegar Gunnar Gunnarsson fékk heiðurslaunin 1945
en þegar hér var komið sögu höfðu fjórir listamenn bæst í flokkinn við hlið
Gunnars: Halldór Laxness, Tómas Guðmundsson, Páll Ísólfsson og Jóhannes
Kjarval. Athygli vekur að við umræðu um fjárlög fyrir árið 1965 kom fram í
máli Gunnars Thoroddsen fjármálaráðherra að tillaga um þrjá nýja heiðurs-
listamenn (Tómas, Pál og Kjarval) hefði komið frá ríkisstjórninni en ekki frá
þinginu.24 Enn var því talsvert rót á fyrirkomulagi heiðurslauna.
Í lögunum sem samþykkt voru um listamannalaun 1967 vantaði fernt
varðandi heiðurslaunin af því sem skotið hafði upp kolli í þeim frumvörpum
sem á undan komu. Í fyrsta lagi var ekki kveðið á um fjölda heiðurslista-
manna, í öðru lagi var engin upphæð eða heildarfjárhæð launa tilgreind
og í þriðja lagi var þar ekki að finna ákvæði um listráð, þó svo að Gylfi Þ.
Gíslason menntamálaráðherra hefði sjálfur mælt fyrir slíku ráði í fyrri frum-
vörpum. Í fjórða og síðasta lagi voru heiðurslaunin ekki undanþegin skatti,
frekar en listamannalaun almennt. Í þessu endurspeglast hinn menningar-
pólitíski vilji löggjafans til að halda hjá sér sjálfdæmi um umfang heiðurs-
launa. Veikt ákvæði um heiðurslaun skapaði líka umræðu. Einar Olgeirsson
lagði fram breytingatillögu á frumvarpinu sem gerði meðal annars ráð fyrir
að 10 listamenn hlytu heiðurslaun og að heildarupphæð þess sem eftir yrði
til skiptanna fyrir aðra listamenn yrði ákveðin í lögunum.25 Í ræðu benti