Tímarit Máls og menningar - 01.06.2015, Blaðsíða 54
J ó h a n n Þ ó r s s o n
54 TMM 2015 · 2
gráta og Jakob sá að það blæddi úr sári á enni stráksins. Öll voru þau með
dökkt hár sem grátt ryk var í og brún augu. Jakob giskaði á að þau væru frá
mið-austurlöndum. Hvað skyldu þau vera að gera inni á baðinu hans? Þá
heyrði hann drunur fyrir utan og fólkið í baðinu hrökk við, maðurinn dró
börnin nær sér og konan ruggaði sér af meiri ákefð. Jakob lokaði dyrunum á
þau og fór út til að gá hvaða læti þetta hefðu verið. Úti var ekkert að sjá, bara
friðsælt sumarkvöldið. Nokkrir mávar svifu um loftið í átt að sjónum. Neðar
í götunni var strákur að hjóla. Jakob fór aftur inn og fór upp og pantaði sér
að borða. Ætli þau vilji eitthvað að borða? hugsaði hann. Nei annars, best að
sleppa því, annars gæti hann setið uppi með fólkið í lengri tíma.
Fólkið var ennþá þarna morguninn eftir. Jakob fór með vatn til þeirra;
þau virtust eitthvað feimin við að nota vaskinn og voru eflaust orðin
þyrst. Maðurinn þáði vatnsflöskuna og kinkaði kolli að Jakobi til að þakka
fyrir sig. Aftur heyrði Jakob drunur fyrir utan og fólkið hrökk við. Síðan
heyrðist svipað hljóð og í vélbyssum í fréttunum. Hvað ætli þetta gæti verið?
Strákurinn fór að gráta hljóðlaust en Jakobi fannst það óþægilegt þannig
að hann lokaði dyrunum. Hann var farinn að kvíða helginni. Vera fólksins
truflaði hann ekki mikið en þó aðeins meira þegar hann var heima. Hann
var ekki með neitt planað fyrir helgina nema einmitt að vera heima og reyna
hugsa ekki um vinnuna. Það gæti reynst erfitt ef fólkið yrði ennþá inni á
baðinu hans. Hann var auðvitað með annað baðherbergi uppi en það var
kannski ekki aðalmálið. Úti var ekki að sjá hvað olli drununum, en honum
fannst aftur eins og ljósið hérna væri öðruvísi en það sem hann sá út um
baðherbergisgluggann. Glerið var sandblásið þannig að það sást ekki alveg út
um það en samt var eitthvað skrýtið við ljósið, eitthvað sem hann náði ekki
alveg að átta sig á.
„Ertu búinn að losa þig við þetta fólk?“ spurði vinnufélagi í lyftunni
daginn eftir. Hann hélt á kaffibolla og var að fletta í gegnum Facebook í
símanum og leit ekki á Jakob.
„Hvað, hvernig fréttir þú af fólkinu?“ spurði Jakob.
„Það var verið að tala um þetta í póker í gærkvöldi, að það væri eitthvað
flóttalið inni á baðherberginu hjá þér.“
„Þau eru á baðinu niðri, ég nota það ekkert.“
„Þannig,“ sagði hann áhugalaus og fékk sér sopa af kaffinu. „Gengur samt
ekkert að hafa þetta lið svona inná sér.“
„Ætti ég kannski að hjálpa þeim?“
„Hjálpa þeim? Hjálpa þeim hvernig?“
„Æji, nei. Ekkert.“ Lyftudyrnar opnuðust og við tók enn einn vinnu dagur-
inn. Jakob steig út og vonaði að vinnufélaganum fyndist hann ekki vera
hall æris legur.
Hann ákvað að reka fólkið út þegar hann kæmi heim. Hann hugsaði þetta
vel á meðan hann skrifaði skýrslur sem eflaust yrðu ekki lesnar og á fundi þar
sem mikið var talað en ekkert ákveðið samdi hann stutta ræðu í huganum