Tímarit Máls og menningar - 01.06.2015, Qupperneq 31
H e i ð u r s l a u n l i s t a m a n n a
TMM 2015 · 2 31
„Vjer erum ekki fagurlistadómarar hér á þingi …“1
Eftir mikið umrót í listalífi og menningarstjórnmálum landsmanna á árum
síðari heimsstyrjaldar, þegar Jónas frá Hriflu átti í miklum útistöðum við
tilraunaglaða listamenn, ákvað Alþingi við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið
1945 að „Gunnar skáld Gunnarsson [skyldi] njóta 6000 kr. heiðurslauna að
viðbættri verðlagsuppbót.“2 Gunnar, sem á þessum tíma var langþekktasti
rithöfundur Íslendinga á erlendri grund, hafði flutt aftur til heimalandsins
árið 1939. Með veitingu sérstakra heiðurslauna til Gunnars komst festa á það
fyrirkomulag heiðurslauna sem við þekkjum nú, þ.e. launin voru veitt beint
af Alþingi við afgreiðslu fjárlaga og þeirra nutu listamenn ævilangt. Páll
Hermannsson, þingmaður Framsóknarflokksins, flutti ásamt fimm öðrum
þingmönnum breytingartillögu um heiðurslaun Gunnars Gunnarssonar. Í
framsöguræðu sagði Páll:
Ég tel að við Íslendingar höfum ekki efni á því að láta líta svo út sem við metum lítils
og látum okkur fátt um finnast íslenzka menn, er svo víðkunnir hafa orðið erlendis
og mikils metnir. Ég finn, að það er sanngjarnt og skylt, að á þessu verði annar blær
framvegis.
Þarna kemur skýrt fram að vinsældir Gunnars á erlendri grund eru rök fyrir
því að veita honum heiðurslaun. Páll taldi einnig að viðtökur Íslendinga þegar
Gunnar fluttist heim hefðu ekki verið nægilega höfðinglegar en skáldið hefði
„unnið landi sínu og sjálfum sér mikla sæmd og aukið þekkingu erlendra
manna á landi og þjóð.“ Páll taldi réttast að Alþingi ákvæði „sjálft úrvals-
mönnum laun, og sé ætlazt til, að þau haldist ævilangt, en einhvers konar
nefnd úthluti til fjöldans.“3 Þingmaðurinn áleit það virðingarauka fyrir
listamenn og þingið að Alþingi tæki að sér að handvelja heiðurslistamenn
fyrir hönd þjóðarinnar. Þarna kemur til sú aðgreining sem enn tíðkast í
dag, heiðurslaun ákveður Alþingi en tímabundnum launum til listamanna
er komið fyrir í því kerfi sem nú heita listamannalaun. Íslenskir listamenn
voru, þegar þarna var komið sögu, farnir að gera sig gildandi í menningarlífi
nágrannaþjóðanna og við það verða þessar breytingar á menningarstefnu
hérlendis, eins konar úrvalsdeild listamanna verður til. Gunnar Gunnarsson
naut hins vegar einn þessa heiðurs í fyrstu, það var ekki fyrr en árið 1956
að Halldór Laxness bættist við hlið hans eftir að hafa tekið á móti Nóbels-
verðlaununum árið áður.
En heiðurslaun listamanna eiga sér lengri og flóknari forsögu. Það var
árið 1891 sem listamenn nutu fyrst styrks frá Alþingi og voru það skáldin
Matthías Jochumsson og Torfhildur Hólm sem styrkina fengu. Sagn-
fræðingurinn Ólafur Rastrick hefur bent á að styrkir til listamanna séu í
raun með fyrstu ummerkjum um menningarstefnu íslenskra stjórnvalda
og dæmi um að „málefni listsköpunar hefðu laumað sér inn á starfssvið