Tímarit Máls og menningar - 01.06.2015, Síða 52
52 TMM 2015 · 2
Jóhann Þórsson
Flóttafólkið á baðinu
Jakob var í spreng þegar hann nálgaðist húsið. Hann bjó í stóru, ókláruðu
kubbalaga húsi í hverfi þar sem önnur hver lóð stóð ennþá auð. Eftir að hafa
keyrt jeppann inn í bílskúrinn var honum svo mikið mál að pissa að hann
ákvað að nota baðherbergið á neðri hæðinni, þó það væri í raun ófrágengið
og ennþá fullt af drasli eftir píparana sem voru að vinna í því þegar allt
hrundi.
Hann stökk inn á baðherbergið, reif klósettsetuna upp og bunan var rétt
byrjuð að renna þegar hann áttaði sig á því að hann var ekki einn inni á bað-
herberginu. Jakob hætti samt ekki að pissa. Hann leit á fólkið, sem húkti í
stóra baðkarinu sem enn átti eftir að tengja. Það glumdi í vatninu í klósettinu
þegar bunan streymdi ofan í en fólkið lét sem það tæki ekki eftir því.
Hjónaband Jakobs hafði farið í vaskinn þegar peningarnir hurfu og nú
rétt náði hann að borga af húsinu um hver mánaðamót en átti síðan ekkert
eftir til að halda áfram að vinna í því. Hann bjó á efri hæðinni, notaði þó
bara hjónaherbergið, eldhúsið og aukaherbergið þar sem hann eyddi flestum
sínum stundum utan vinnunnar heima, húkandi yfir tölvuskjánum. Fólkið
hefði þess vegna getað hafa verið þarna í nokkrar vikur. Þau litu hálf-
aumingjalega út, rauð og þrútin í kringum augun eins og þau væru nýhætt
að gráta. Þau virtust hrædd, vör um sig eins og fuglar sem heyra í kattabjöllu.
Hann kláraði að pissa, gekk út og lokaði á eftir sér.
Ætti hann að hringja á lögguna? Hann hugsaði málið á meðan hann gekk
upp á efri hæðina. Úr stofunni var hann með útsýni yfir sjóinn og Reykjavík,
í gegnum risastóran glugga sem þótti flottur þegar húsið var hannað en var
bara pirrandi svona gardínulaus. Jakob gekk að ísskápnum og tók þaðan
pizzu frá deginum áður og hitaði í örbylgjunni. Ætli fólkið á baðinu sé
svangt?, hugsaði hann. Ætti ég að gefa þeim með mér? Hann velti þessu aðeins
fyrir sér á meðan hann horfði á fréttirnar en gleymdi þeim milli frétta af
vísítöluhækkunum og eignum Íbúðalánasjóðs í Borganesi. Hann kíkti á
netið og las síðan í bók uppi í rúmi áður en hann fór að sofa. Hann bylti sér
í rúminu áður en hann sofnaði, það var eitthvað sem truflaði hann. Og af
hverju höfðu þau endilega þurft að kaupa svona stórt rúm, þau höfðu bara
verið tvö og þetta rúm var nógu stórt fyrir heila fjölskyldu. Honum fannst
hann aldrei vita almennilega hvernig hann átti að liggja í því.