Tímarit Máls og menningar - 01.06.2015, Side 100
100 TMM 2015 · 2
Ármann Jakobsson
David Hemmings á salerninu
prósaljóð um miðlífskrísu
Eitt afreka minna í lífinu er að læra að fara á salernið í öðrum húsum
til að draga úr streitu. Þann sigur skilur aðeins annað taugaveiklað fólk.
Þannig er líf mannsins eilíft frelsisstríð. En í raunveruleikanum er fullur
sigur fátíður og á innyflum sínum getur enginn unnið nema í besta falli
hálfan sigur. Taugaveiklað fólk er gjarnan útsmogið, af brýnni þörf. Þannig
öðrum snjallara að finna góð salerni. Sem það næstum treystir því að auð-
vitað treystir það engu. Hreinleg, setan ekki laus, helst ekkert veggjakrot.
Umfram allt hæfilega heitt vatn, hvorki volgt né brennheitt, og auðvitað
sápan. Handþvottur er haldreipi hins taugaveiklaða sem veit að heimurinn er
ginnungagap og enginn grípur þann sem fellur; hann mun hrapa og hrapa,
hraðar og hraðar án áfangastaðar. Taugaveiklað fólk trúir ekki á slíka staði,
staðleysið mótar tilvist þess. Það þvær sér og þvær um hendurnar, eins og
Pílatus.
Eitt ágætt salerni fann ég á kaffihúsi í miðbæ Reykjavíkur. Litríkt og
notalegt; góð aðstaða til handþvottar. Ef maður er einn af þeim sem fer
stundum á salernið til þess eins að þvo sér um hendur og er þar grunsamlega
stutt sem er næstum jafn slæmt og að vera grunsamlega lengi. En stundum
þarf ég að setjast og eitt sinn settist ég og horfðist í augu við David Hemm-
ings. Eða öllu heldur Thomas ljósmyndara úr kvikmyndinni Blow-Up. Sem
ég sá rígfullorðinn í sjónvarpi í Danmörku. En löngu fyrr hafði mamma eða
pabbi … mamma líklega … sagt mér frá fléttunni í myndinni. Sem raunar er
nýbylgjumynd án fléttu. Frá sjöunda áratugnum. Mér finnst hún dæmigerð
fyrir hann. Litirnir. Og klippingin. Ekki á myndinni heldur á David Hemm-
ings. Eða Thomas. Sem horfir á mig sitja á klósettinu með myndavél fyrir
framan sig. Ljósmyndastjarfur. Er að taka mynd. Ófyrirleitinn ljósmyndari
ryðst inn á mann í prívaterindum. En samt er það hann sem er mynd, ekki
ég. Getur ekki horft, sama hve hann horfir. Þetta er ekki einu sinni David
Hemmings, aðeins póstkort og varla af honum heldur af Thomas ljós-
myndara sem hann hefur ljáð útlit sitt, rödd og hreyfingar þó að tvennt það
síðarnefnda fangist ekki á mynd. Bara mynd. Bara leikari.
Hann er dáinn eins og foreldrar mínir. Kemur aldrei aftur frekar en
sjöundi áratugurinn. Á myndinni ungur en aðeins fagur í augum miðaldra
sem finnst æskan almennt fögur. Í svip hans eitthvað dekadent, veikgeðja,