Tímarit Máls og menningar - 01.06.2015, Page 112
Tr y g v i D a n i e l s e n
112 TMM 2015 · 2
leggur hálfan hnött að baki
og breytist í bálhvassan storm.
Í þessu veðri
varð ég til.
*
Þau liggja samanvafin í skítugu rúmi úti í horni á þriggja herbergja mínímal-
ískri en notalegri íbúð. Vindurinn hamast á glugganum í hörðum hviðum –
annað kastið hljóðar hann eins og organdi kona sem reynir að mölva glerið
með því náttúrunnar afli, röddinni. Angandi ilmkerti slá á kæfandi ýldufýlu
af myglusvepp sem þrífst í hverjum krók og kima. Notaðar sprautur liggja
eins og hráviði kring um plötuspilarann sem spilar einu plötuna þeirra:
Tónlistina úr myndinni
Top Hat
( 1935 )
Uppáhalds dans- og söngvamyndin þeirra. Ef annað þeirra er ekki heima
hringir hann í hana á andvökunóttum og syngur Cheek to Cheek í símtólið
þangað til hún sofnar. Ég líki honum ekki við Fred Astaire en hreinan tón
hefur hann fengið í vöggugjöf, það má hann eiga. Vonbjartur. Pabbi minn.
Hann er myndhöggvari. Með sérstaka áherslu á formgerð kvenlíkamans
mótar hann fólk í samförum úr steini. Hann heggur í hvað sem að höndum
ber – grjót sem hann gengur fram á og hnuplar. Stundum hjálpa vinir hans
honum að bera stórgrýti alla leið upp á sjöundu hæð í blokkinni sem íbúðin
er í. Hann selur höggmyndirnar á götum úti og það kemur fyrir að hann efni
til sýningar. Hann er kappsamur en því miður er höggmyndamarkaðurinn
ekki stór. Hann hefur það fyrir satt að betra sé að lifa sáttur við sult en í eymd
við auð. Hann vill ekkert verk annað iðja en að höggva í stein.
„Mér finnst að fellibylurinn eigi að heita Ísabella,“ heyrist í pabba.
Hún virðir hann fyrir sér með óræðu brosi. Hún er nakin, hallar höfði sínu
að karlmannlegum barmi hans og gælir við bringuhárin.
* svitadropar *
„Ég held að við séum komin að D í fellibyljastafrófinu. Það þýðir að þetta sé
fjórði fellibylurinn í ár. Þeim bara fjölgar og fjölgar,“ segir hún, allt að því
hvíslandi.
Líf. Mamma mín. Hún er með sítt, ljóst hár og óvenjuleg ásýndum. Það eru
ekki margir sem myndu kalla hana fallega en hún er náttúruleg og óförðuð.
Vöxturinn minnir á konur sjöunda áratugarins, línurnar mjúkar og heil-
brigðar. Konurnar sem Vonbjartur heggur út hafa allar þann vöxt. Hún býr til
listrænar stuttmyndir með nærmyndum af froskum og pöddum. Hún hrífst af
leik litríkra skordýra á grænum blöðum. Til að draga fram andstæðurnar og