Tímarit Máls og menningar - 01.11.2015, Qupperneq 7
S j ö t í u þ ú s u n d h u g s a n i r
TMM 2015 · 4 7
fór ég ofsalega langa ferð hinum megin á hnöttinn eða alla leið suður til
Danmerkur og plukkede jordbær í heilt sumar. Þörfin fyrir að fara burt til að
koma aftur fylgir þeim sem búa á eyju og er hluti af bókmenntaminni okkar:
að fara burt til að vera sigldur. Mér fannst ég vera tilbúin að fara burt þegar
ég var sjö ára, en ég var ekki tekin alvarlega; ég var enn svo lágvaxin, að ég
leit út fyrir að vera barn. Þegar ég fór síðan alfarin að heiman eftir stúdents
próf var ég orðin 1,71 sentímetrar á hæð í vegabréfinu.
Þegar ég var unglingur fékk ég áhuga á tungumálum og lærði þessi
venjulegu menntaskólamál: ensku, dönsku, þýsku, frönsku, svo keypti ég
mér líka bók með kassettum sem hét: Teach yourself Italian og það var
einmitt það sem ég gerði þegar ég var átján ára. Á sama tíma uppgötvaði ég
tungumál sem leið inn í annan hugsunarhátt, að í sérhverju tungumáli byggi
sérstök hugsun, þess vegna væri hvert tungumál jafn mikilvægt, hvort sem
það væri talað af tvö hundruð þúsund manns eða tvö hundruð milljónum.
Ég hef reyndar alla tíð haft áhuga á fámennistungumálum og almennt séð
á öllu sem er ópraktískt. Ég byrjaði einhvern tímann að læra katalónsku og
seinna basknesku.
Varstu félagsvera, einfari? Ertu félagsvera, einfari?
Já, ég er svona félagslyndur einfari. Mér finnst mjög gaman að vera innan
um fólk en mér finnst líka fínt að vera ein.
Varstu pabbastelpa? Mömmustelpa? Hvorugt?
Ég var frekar sjálfstæð en hafði samt þörf fyrir þau bæði.
Varstu trúuð? Ertu trúuð?
Sko, ég er hérna einmitt með rósakrans sem er bænakeðja með krossi sem
vinkona mín gaf mér fyrir stuttu. Ein perla fyrir hverja bæn. Ég á nokkra aðra,
m.a. einn sjálflýsandi sem lýsir í myrkri. Trú byggir á persónulegri reynslu
sem ekki er hægt að útskýra fyrir öðrum. Ég held að trú mín tengist andlegri
leit í víðu samhengi. Hins vegar áttaði ég mig á því að ég væri kannski komin
lengra í trúarlegum pælingum en almennt gengur og gerist, þegar ég hætti
mér inn á það jarðsprengjusvæði að fjalla um trúarlegt efni í síðasta verkinu
mínu sem var leikritið Ekki hætta að anda og var frumsýnt í janúar. Ég áttaði
mig á að almennt séð skilur fólk jafnvel ekki gegnsæjustu trúarlegu vísanir.
Hvað þá þegar þær eru komnar á „stig tvö“ í samtímabúning umhverfismála
með guðshugmynd sem stígur niður til jarðar sem sameiginlegur sæðisgjafi
fjögurra kvenna! En eins og myndlistarkonan Steina Vasulka segir og mér
þykir svo fallegt: þegar maður gerir eitthvað í listsköpun sem kemst ekki til
skila á þann hátt sem maður vill, þá á maður í næsta verki að gera meira úr
því sem aðrir töldu galla verks! Leikritið fékk einkunn á skalanum fjórar
stjörnur til fjögurra hauskúpna og í Djöflaeyjunni í sjónvarpinu stystu
umfjöllun í sögu íslenskrar leikritunar; átján sekúndur!