Tímarit Máls og menningar - 01.11.2015, Blaðsíða 34
J ó n Yn g v i J ó h a n n s s o n
34 TMM 2015 · 4
Draumar strákanna snúast um að sigrast hver á öðrum í fótbolta til þess að
vinna hylli stelpnanna sem þekkja „vart muninn á marki og bolta“ en láta sig
dreyma um hamingjuna í „tilfinningaríkum samskiptum kynjanna“. Svið
kynjanna eru skýrt afmörkuð og stelpur sem spila fótbolta fara yfir þau mörk
og þykja ekki eftirsóknarverðar í heimi sagnanna.2
Dulrænir atburðir, skyggni, berdreymi og draugagangur eru nokkuð
algengir í bókum Þorgríms. Að þessu leyti eiga fótboltabækur Gunnars
Helga sonar ýmislegt sameiginlegt með bókum Þorgríms. Þar er líka fjallað
um samskipti kynjanna á unglingsárum og dulrænir atburðir setja svip sinn
á bæði atburðarásina og ekki síður frásagnaraðferð bókanna um Jón Jónsson
Þrótt ara. Að öðru leyti eru bækur Gunnars Helgasonar gagnólíkar bókum
Þor gríms eins og síðar verður komið að.
Stráka og stelpubækur?
Hér er ekki rúm til að kafa dýpra í sögu íslenskra fótboltabókmennta fyrir
börn en það er óhætt að fullyrða að þær hafa fram á síðustu ár verið algerar
strákabækur þar sem ekki er efast um hefðbundin hlutverk kynjanna og þeir
sem sýna merki þess að víkja frá þeim, sterkar stelpur eða kvenlegir strákar
eru fyrst og fremst uppspretta brandara.
Þess vegna þarf það ekki að koma á óvart þótt einhverjum verði það á
að setja bækur Gunnars Helgasonar fyrirvaralaust í sama flokk og ég hef
reyndar rekið mig á það oftar en einu sinni að fólk sem ekki hefur lesið
Fótboltasöguna miklu – og þekkir kannski ekki börn sem hafa gert það –
heldur einmitt að þetta séu bara bækur um stráka í eilífum fótbolta, bækur
sem ýti undir staðalmyndir og kynjaskiptingu. En stundum leitum við langt
yfir skammt að slíkum staðalmyndum; þær er ekkert síður og stundum
miklu fremur að finna í væntingum okkar en í bókunum sjálfum.
Höfundurinn virðist hafa verið ágætlega meðvitaður um þetta strax
þegar fyrsta bókin kom út. Hann sagði í viðtali við Börk Gunnarsson á mbl.
is: „Annars halda allir að þetta sé strákabók, en þetta er það ekki, þetta er
fótboltabók og það eru bæði strákar og stelpur í fótbolta.“3
Staðreyndin er sú að í Fótboltasögunni miklu, einkum frá og með bók
númer tvö, Aukaspyrnu á Akureyri, er ýmislegt gert til að vinna á móti því að
bækurnar detti í það fyrirsjáanlega far að vera hreinræktaðar strákabækur.
Þar kemur Rósa til sögunnar, fótboltastelpa sem æfir með Fylki og vekur
nýjar tilfinningar í brjósti aðalsöguhetjunnar og sögumannsins. Í næstu
bók, Rangstæður í Reykjavík, er sviðið REYCUP, alþjóðlegt fótboltamót fyrir
unglinga sem haldið er í Laugardalnum á hverju sumri. Þar spila bæði kynin
og einn af hápunktum sögunnar er REYCUPballið þar sem hormónaflæðið
og gelgjan sem einkenna bókina nær hámarki. Stelpurnar sem Þróttarstrák
arnir kynnast þar koma líka við sögu í síðustu bókinni, Gula spjaldinu í
Gautaborg, þar sem þær taka þátt í stærsta alþjóðamóti barna og unglinga