Tímarit Máls og menningar - 01.11.2015, Blaðsíða 71
K r o s s
TMM 2015 · 4 71
Nei, þögull hristi maðurinn höfuðið. Kannski hafði hann ekki skilið
mig, kannski voru lokkarnir uppseldir. Dökk augu mannsins hvíldu á mér
á meðan ég skoðaði eyrnalokkana sem þó fengust. Þeir lágu læstir undir
gleri í afgreiðsluborðinu eins og þeir væru smíðaðir af færustu hönnuðum
heims úr eðalmálmum sóttum niður í dimmustu námur jarðkúlunnar.
Návist mannsins var yfirþyrmandi. Mér fannst hver doppa í skyrtunni hans
fylgjast með mér. Ég vissi að á mér hvíldu þau álög að verða að kaupa eitthvað
í þessari búð. Annars kæmist ég ekki út. Ég gat ekki gert manninum það að
fara tómhent heim þegar hann hafði sjálfur ferðast yfir hálfan hnöttinn til að
geta afgreitt mig. Eyrnalokkaúrvalið var þó ekki beisið; fuglsklær í nokkrum
stærðum og ying og yangmerkin. Jú, og kræklóttir hakakrossar. Klærnar
voru ógeðslegar og yingið og yangið skildi ég ekki. „Ég ætla að fá þessa,“
sagði ég á þvoglumæltri slabbneskunni og benti á hakakrossana. Álögin
hrundu af mér um leið og ég rétti fram seðilinn.
Skiptimiðinn var enn í vettlingnum og skömmu síðar var ég komin heim
með skartið í brúnum bréfpoka. Af honum lagði undarlegan ilm sem fyllti
út í hvert horn í herberginu mínu. Ég var hálfhrædd um að foreldrar mínir
fyndu lyktina og færu að spyrja mig út í hana. Pabbi var kominn heim og
hafði komið við í búð á leiðinni. Hann talaði um verðið á matnum. Eitthvað
var að hækka. Allt var að hækka. Við borðuðum steikt slátur með sykri.
Hljóðlega. Mamma var þreytuleg og ég náði aldrei augnsambandi við hana.
Af og til þessa helgi tók ég lokkana fram, fór með þá inn á baðherbergi
og mátaði fyrir framan spegilinn. Mér fannst ég vera önnur með þá. Ég var
meiri unglingur en áður, sér í lagi þegar ég var líka í gallajakkanum með
barmmerkjunum. Ég var stolt af að hafa keypt þessa lokka og hlakkaði til að
fara með þá í skólann. Ég hafði ekki verið með neitt vesen, hvorki beðið um
far í bæinn né peninga fyrir kaupunum. Ég hafði séð um þetta allt saman
sjálf. Ég var jú að verða unglingur.
Loks afréð ég að sýna mömmu þá. Það varð að undirbúa serímóníuna
vandlega. Fyrst athugaði ég hvar hún var niðurkomin. Þau pabbi sátu inni
í stofu. Pabbi las helgarblöðin í hægindastólnum en mamma sat í sófa og
virtist vera að hlusta á dagskrá í útvarpinu þar sem leikin voru létt lög af
hljómplötum. Ég þorði ekki að setjast þétt upp við hana, heldur tyllti mér í
stólinn gegnt henni, dró hárið frá eyrunum og sagði: „Sjáiði! Ég var að kaupa
mér eyrnalokka.“
Pabbi svipti Tímanum frá andlitinu og virti mig fyrir sér.
„Ég fór sjálf ofan í bæ og keypti þá.“
„Hvað sagðirðu að þeir hefðu kostað?“
Ég hafði ekkert sagt um það en nefndi verðið skilmerkilega. Pabbi velti
upphæðinni gaumgæfilega fyrir sér eins og hann væri að bera það saman við
kílóverðið á kjötfarsi. Síðan dró hann blaðið aftur fyrir andlitið.
Mamma hlustaði þögul á okkur. Hendurnar hvíldu í kjöltu hennar og
hún virtist láta hugann reika um lendur léttu tónlistarinnar sem barst frá