Tímarit Máls og menningar - 01.11.2015, Blaðsíða 102
S v e r r i r N o r l a n d
102 TMM 2015 · 4
Lítill skáldsögufloti sigldi út á vatnið. Bækurnar mínar – sem ég hafði lagt
svo mikla vinnu í – liðu ein af annarri burt frá bakkanum, brúnir og bláir
litir kápunnar dökknuðu eftir því sem vatnið smaug dýpra inn í pappírinn.
Allt í einu áttaði ég mig á því hvað ég hafði gert. Ég kraup óttasleginn á
bryggjunni, með bankandi hjarta. Áhrif vínsins runnu af mér um leið og
fingurnir snertu kalt vatnið.
Hvað ef einhver kæmi og sæi mig? Og tuttugu og eitthvað bækur eftir mig
fljótandi úti á vatninu!
Úps, þetta var ekki gott! Þetta var alls ekki gott!
Í örvæntingu tók ég að fiska rennvotar bækurnar upp úr vatninu. Ég lagði
þær á bryggjuna eins og nýveidda fiska og teygði mig sífellt glæfralegar út
yfir vatnið til að ná þeim sem flotið höfðu lengst frá bakkanum. Það var svo
sem fyrirséð að ég plompaði sjálfur einnig út í vatnið. Það var ískalt og nú var
ég glaðvakandi. Vatnið náði mér reyndar ekki nema upp að mitti, bara verst
með gallabuxurnar – ég hafði engar til skiptanna. (Reyndar þurfti ég helst
að kaupa nýjar; það var komið klofgat á þessar.) Ég svamlaði eftir síðustu
bókunum og hafði nú safnað þeim saman í lítinn haug á bryggjunni.
Ég var í miðjum klíðum við að hífa mig aftur upp á bryggjuna þegar hópur
af ungu, glaðværu fólki kom arkandi handan fyrir hvíta húsið efst á hæðinni
og niður stíginn. Þau stefndu öll í átt að bryggjunni.
Nei nei nei!
Ooo jú: Þarna komu þau öll! Fólkið sem átti árituð eintök á bryggjunni.
Bækurnar mínar biðu þeirra í hrúgu, rennblautar og upplitaðar, lágu þarna
eins og nýveiddir fiskar og ég sjálfur holdvotur eins og feiminn hafmaður –
höfundurinn.
Við höfðum verið að velta því fyrir okkur alla ferðina hver myndi leggja
til efnivið í næstu Biskops Arnösögu, venjulega urðu einhverjir skandalar
eða svæsnar ástarsögur eða það skeði eitthvað skrítið – að þessu sinni hafði
ekkert gerst – þar til nú. Mig hafði bara ekki grunað að það yrði ég sem legði
til söguna.
„Hvað varstu að spá? Ég ætlaði einmitt að biðja þig um að býtta á bókum
við mig!“
„Hey, þetta eintak er merkt mér!“
„Þær þorna eins og skot í sólinni.“
„Og þetta gerir þær bara sérstakari!“
Nokkrum mínútum síðar var hvert eintak orðið nokkurn veginn þurrt
en jafnframt samanskroppið og krumpað. Kannski yrði frægt á Norður
löndunum að ég færi reglulega í nætursund með bókunum mínum? Við
fundum auðveldlega út hver átti hvaða eintak, blekið á titilsíðunum var
undarlega vatnsþolið og seigt. Svo rifum við okkur úr fötunum og stukkum
út í stöðuvatnið.