Tímarit Máls og menningar - 01.11.2015, Page 32
32 TMM 2015 · 4
Jón Yngvi Jóhannsson
Þetta á að vera
FÓTBOLTABÓK!
Um Fótboltasöguna miklu
eftir Gunnar Helgason
Það getur verið mögnuð upplifun að fara á fótboltaleiki með Þrótti. Á
heimaleikjum í Laugardalnum lærist manni fljótt að stjörnur félagsins eru
ekki bara inni á vellinum. Í stúkunni er líka mikið úrvalslið sem heldur
uppi fjörinu með söng, stuðningshrópum og einstaka athugasemdum um
frammistöðu dómara og aðstoðardómara. Í því síðastnefnda er Gunnar
Helgason oft fremstur í flokki og kemur kannski ekki á óvart.
Einn minnisstæðasti Þróttarleikur sem ég hef séð, af ýmsu ástæðum, var
þó ekki heimaleikur, heldur leikur við Fjölni sem fór fram í Grafarvoginum
síðsumars árið 2013. Stuðningsmenn Þróttar voru fjölmennir í stúkunni og
nokkrir ungir Fjölniskrakkar hlupu um og létu okkur heyra það. Þangað til
þau komu auga á Gunnar Helgason. Þá snarrann af þeim töffaraskapurinn
og óblandin aðdáun kom í staðinn. Þótt Gunnar væri að vísu Þróttari, og
þar með andstæðingurinn, þá yfirtrompaði hann það algerlega með því að
vera höfundur Fótboltasögunnar miklu, bókanna fjögurra um Þróttarann
Jón Jónsson og félaga hans. Þetta er ekki eina skiptið sem ég hef orðið vitni
að svipuðum uppákomum. Mér er óhætt að fullyrða að enginn leikmaður
Þróttar skrifar jafnmargar eiginhandaráritanir á leikjum liðsins og Gunnar
Helgason.
Fótboltasagan hefur náð miklum vinsældum og hún hefur laðað fjölmarga
fótboltakrakka að bóklestri. Í þessari grein er ætlunin að rýna aðeins í þessar
fjórar bækur, huga að þeim hugmyndum um kyn og kyngervi sem þar birtast
og síðast en ekki síst að fjalla um bókmenntaleg einkenni þeirra og sögu
mannsaðferðina sérstaklega.
Fótboltasagan mikla er ekki fyrsta fótboltasagan sem kemur út á íslensku.
Samband hennar við fyrirrennara sína er mikilvægt af ýmsum ástæðum.
Þess vegna er rétt að byrja á því að rifja upp í örfáum dráttum sögu íslenskra
fótboltabóka.