Tímarit Máls og menningar - 01.11.2015, Qupperneq 39
Þ e t t a á a ð v e r a F Ó T B O LT A B Ó K !
TMM 2015 · 4 39
Jón er ekki nema níu ára þegar atburðir fyrstu bókarinnar gerast og hann
skrifar bókina strax í kjölfarið. Í annarri bók flokksins, Aukaspyrnu á Akur
eyri, er hann orðinn 11 ára. Á fyrstu síðu upplýsir hann okkur um að hann
sé höfundur fyrri bókarinnar: „Fyrir tveimur árum fórum við Þróttararnir
til Vestmannaeyja og lentum í ótrúlegustu ævintýrum. Ég skrifaði meira að
segja bók um þá ferð sem heitir Víti í Vestmannaeyjum.“14
Í Fótboltasögunni miklu er sem sagt látið eins og Jón sé ekki bara
sögumaður bókanna heldur er hann líka höfundur þeirra bóka sem út eru
komnar. Þar með nær sögumannshlutverk hans til bókanna allra, ekki bara
frásagnarinnar.
Sem slíkur beitir Jón líka óspart öðrum aðferðum en einföldum texta við
skrifin. Myndirnar í bókunum eru sumar hefðbundnar myndskreytingar
atburða, vignettur í upphafi kafla og skemmtileg útfærsla á blaðsíðutölum
og fleira í þeim dúr. En inn á milli eru myndir sem Jón sjálfur vísar til, þær
sýna liðin sem Jón spilar með, leikkerfi og einstök atvik úr leikjum liðanna
(AáA, 9).
Jón er ágætlega að sér í frásagnarfræði miðað við aldur og beitir ýmsum
brögðum sem þekkt eru úr bókmenntaheiminum til að sýna lesandanum á
spil sín og gera grein fyrir aðferðum sínum við að segja sögu. En hann leitar
fanga víðar. Krakkar af kynslóð Jóns eru auðvitað alin upp við kvikmyndir á
geisladiskum og þeim fylgir iðulega aukaefni af ýmsu tagi, viðtöl við leikara
og leikstjóra, burtklipptar senur, heimildamyndir um gerð myndarinnar og
fleira í þeim dúr. Jón er enginn eftirbátur kvikmyndafyrirtækja að þessu
leyti. Öllum bókunum fylgir ítarlegt aukaefni þar sem farið er í saumana
á einstökum atvikum í leikjum stráka og stelpna á mótunum sem lýst er í
meginsögunni, úrslit eru tíunduð og einnig má finna þar atriði sem ekki
rata inn í meginsöguna. Í fyrstu bókinni er þannig birt viðtal sem ónefndur
heimildamyndagerðarmaður tekur við Jón og félaga hans og í Rangstæður
í Reykjavík fær íþróttafréttamaðurinn Guðjón Guðmundsson að leika lítið
aukahlutverk þar sem hann tekur viðtal við stelpur úr Fylkisliðinu, þeirra á
meðal Rósu. Jón vísar líka iðulega til þessa aukaefnis, fyrst snemma í fyrstu
bókinni.
Ef þið viljið fá að vita meira um strákana í liðinu þá er allt um þá í aukaefninu aftast
í bókinni, á blaðsíðu 253. Ég mæli reyndar með því að þið kíkið á það. Aukaefnið er
alltaf skemmtilegt!15
Aukaefnið er líka upplýsandi fyrir lesandann, bæði um Jón sem sögumann
og höfund og um fótbolta almennt. Rangstöðureglan, sem hefur vafist fyrir
mörgum áhorfandanum, bæði í leikjum barna og fullorðinna, er til dæmis
skýrð í aukaefninu sem fylgir Rangstæður í Reykjavík (302–04).
Jón er ekki bara á heimavelli þegar kemur að fjölbreyttum aðferðum við að
miðla efni og aukaefni. Hann er líka ágætlega fróður og vel lesinn. Stundum
notar hann tækifærið til að sýna þetta og fræða lesendur sína: