Tímarit Máls og menningar - 01.11.2015, Page 67
Tv ö l j ó ð
TMM 2015 · 4 67
UNDIR SATÚRNUSI
Heiti ljóðsins vitnar til þungra þanka og óyndis, samanber enska lýsingarorðið „sat
urnine“ sem þýðir fálátur og þungur á brún. Hér ávarpar Yeats eiginkonu sína George
og biður hana að óttast ekki þótt hann sé þungur í bragði, hann sé ekki að hugsa um
fornar ástir, sem sé Maud Gonne. Hún sé að vísu hluti af fortíð hans, en honum bjóðist
ekki önnur fortíð. Hann segist vera að hugsa um átthaga sína og látna frændur og áa.
Hann tilgreinir þrjá nafna sína, mismunandi skapi farna. Hinn önugi Pollexfen er
William Pollexfen afi Yeats í móðurætt, sem þótti með eindæmum skapstyggur og
þumbaralegur. Middleton er William Middleton frændi Yeats sem bjó í Rosses Point og
var mun viðkunnanlegri náungi. Rauðhærði Yeats er alnafni skáldsins og afi í föður
ætt, William Butler Yeats prestur í sýslunni Down. Þetta var rauðhærður langur sláni
sem ungur vann til verðlauna í hástökki. Hann var mikill gleðimaður, þótti ágætis
prestur en þó mun betri hestamaður og samkvæmisdansari.
Ljóðið er úr Michael Robartes and the Dancer (1921).
Haltu ei, vina, þótt líf mitt sé litað þrá,
að ég láti mig dreyma um gömlu ástina mína.
Hún er mín fortíð, sú eina sem ég á,
en ekkert skyggir á faðm og kossa þína
og líf okkar saman. Ég læt mig dreyma um menn,
ég læt mig dreyma um mann sem að ýmist þagði
ellegar skammaðist, önugan Pollexfen,
og einn sem Middleton hét og var léttari í bragði,
og rauðhærða Yeats, nú þekkti ég aldrei þann,
en þó er sem ég muni útlit hans, skap og hyggju.
Manstu í Sligo aldraða sjóarann
sem sagði þegar við hittumst niður við bryggju,
nei, kallaði: „Ertu kominn heim á ný?
Og komin tuttugu ár!“ Ég læt mig dreyma
um lítinn dreng að lofa til einskis því
að lifa þar sem fólkið hans kallaði heima.
Andrés Eiríksson þýddi og skrifaði skýringar