Tímarit Máls og menningar - 01.11.2015, Page 96
S v e r r i r N o r l a n d
96 TMM 2015 · 4
honum undir skrifborðið og hélt svo aftur út til hinna þátttakendanna sem
komnir voru í pásu og stóðu við innganginn. „Það er svo dásamlegt að vera
innan um svona margt ungt fólk sem reykir,“ sagði einhver við góðar undir
tektir. Sólskinið glitraði á stöðuvatninu, hávaxin tré teygðu sig upp í gamla,
góða himinblámann, ótrúlegt hvað sumarbirtan hefur góð áhrif á sálarlífið,
hugsaði ég og fann hvernig gleðin streymdi að nýju út um allan líkamann. Ég
ákvað að gefa fólki bara eintak af bókinni minni á síðasta kvöldupplestrinum
– hreinlega pína fólk til þess að þiggja eintak, ef með þyrfti – og sleppa því að
hafa áhyggjur af þessu í bili.
Ég gekk inn í kennsluhúsið, pumpaði hraustlega úr kaffikönnunni í boll
ann minn og steig svo aftur út í hvítt sólskinið.
***
Um kvöldið skrönglaðist ég úrvinda upp í herbergið mitt strax eftir kvöld
upplesturinn. Oft þóttu mér bókmenntaupplestrar ekkert neitt svakalega
skemmtilegir en stemningin hér var allt önnur en venjulega, snarkandi
arinn, vínbeljur, við sátum á gömlum, brakandi trébekkjum og hlustuðum
á þá sem lásu og allir voru svo flinkir og áhugaverðir og andrúmsloftið bara
eitthvað svo tjillað og næs að mér fór strax að líða vel. Á eftir var ég alveg
að niðurlotum kominn, sirka fjörutíu tímar án svefns að baki, þotuþreytan
minnti á hálfgerða þynnku. Í dagbókina mína skrifaði ég: 8. júní 2015, og svo
skrifaði ég ÞÚDL og dró kassa utan um bókstafina sem stóðu fyrir „Þættir úr
daglegu lífi“. Ég hafði notað þessa skammstöfun árum saman í dagbókunum
mínum til að aðgreina slíkar færslur frá minnispunktum og uppköstum að
ljóðum, smásögum eða köflum í skáldsögunum mínum. Ég teiknaði líka
stundum myndasögur sem ég kallaði sama nafni, Þættir úr daglegu lífi.
Nú orkaði ég hvorki að teikna myndasögu né skrifa lengri dagbókarfærslu
en Biskops Arnö, þotuþynnka, og hneig svo á rúmið. Þegar ég hafði teygt
værðarlega úr mér svo að brakaði í hverjum liðamótum, varð mér snöggvast
litið undir skrifborðið – samstundis fékk ég stein í magann. Hvers vegna
hafði pabbi sent mér svona mörg eintök af bókinni minni? Hafði ég beðið
hann um að senda mér hátt í þrjátíu eintök? Hér gat enginn lesið íslensku
nema Lóa Hjálmtýsdóttir (teiknari og myndasöguhöfundur) og Eiríkur Örn
Norðdahl (leiðbeinandi) og kannski Færeyingurinn Páll Nolsøe (krimma
höfundur), hin gátu í mesta lagi dáðst að krúttlegri höfundarmyndinni af
mér á bakhlið kápunnar. Ég var svo þreyttur á því að vera alltaf í útlöndum
og skrifa á máli sem næstum enginn skildi og næstum enginn hafði áhuga á
að reyna að skilja, og nú var þetta ástand ennþá áþreifanlegra en venjulega.
Af hverju gátu ekki bara allir talað íslensku?
Mig dreymdi að þegar ég vaknaði og gengi fram í kennslustofuna, stæði
þar annar kassi á borðinu, með þrjátíu bókum í viðbót.