Tímarit Máls og menningar


Tímarit Máls og menningar - 01.05.2002, Side 28

Tímarit Máls og menningar - 01.05.2002, Side 28
inna er 9000. Fæst af þeim um 5000 börnum sem þarna voru lifðu. Þau voru mörg hver í björgunarvestum og þegar þau drukknuðu eða króknuðu snerust þau á haus, fæturnir uppúr en höfuðið niður. Þeir sem horfðu yfir sjóinn í kastljósum leitarbátanna sáu hundruð smárra fóta standa upp úr vatnsfletinum. „Ég hef aldrei síðan getað sungið „Litlu andarungarn- ir"" sagði ein þeirra sem lifði af. Þetta er mesti skipskaði sögunnar. Þeir rúmlega 1300 sem drukknuðu þegar Titanic fórst eru dropi í þessu dauðahafi. Og eins og oft hefur verið bent á - það hefur alla tíð verið undarlega hljótt um þennan „mesta skipskaða allra tíma". Og þarna, á þessari örlagastundu, lætur Gunter Grass söguhetjuna í sinni nýjustu bók Krabbagangur (Im Krebsgang) fæðast. Móðir hans er ein af eftirlifendunum því í fæðingar- hríðunum hefur henni verið komið í bát og barnið á hún um borð í tundurspillinum sem bjargar henni. Hún er þekkt persóna úr fyrri bókum Grass, Tulla Pokriefke nokkur sem þvælist með strákunum í Köttur og mús (1961, ísl. þýðing eftir Guðrúnu B. Kvaran 1978) og sem dáð er sem einskonar frummynd konunn- ar í Hundaárum (1963). Enda lagði Wilhelm Gustloff upp frá söguslóðum Gunters Grass, svæðinu í kringum Danzig þar sem nú heitir Gydansk. Eftir stríð settist hins vegar Tulla að í Schwerin í Austur-Þýskalandi en þaðan var einmitt téður Wihelm Gustloff sem skipið hét eftir. Hringurinn lokast, en það er mikill óheilla- hringur því nú, um aldamótin 2000, lifna allir þessir atburðir að nýju fyrir tilstuðlan barna- barns Tullu með hroðalegum afleiðingum. Sekt og fyrirgefning Krabbagangur hefur setið í efsta sæti þýska metsölulistans að heita má samfellt frá því að hún kom út í febrúar síðastliðnum. Eins og venjan hefur verið um flest verk Grass hafa spunnist líflegar umræður um hana í Þýska- landi. Reyndar bregður nú svo við að gagn- rýnendur hafa tekið óvenju vel á móti henni. Það hefur nánast verið hefð í Þýskalandi undan- farna tvo áratugi að rakka niður hvert snifsi úr smiðju Grass á sama tíma og Ijósara hefur orð- ið með hverju árinu að hann er einn af örfáum evrópskum rithöfundum á síðari hluta 20. aldar sem tekist hefur að skapa raunverulegar heimsbókmenntir en ekki bara stílæfingar og stæla. Kjötmatsmennirnir í Stokkhólmi settu hann í Nóbelsflokk nú um árið við fremur lítinn fögnuð þýskra menntamanna og því var spáð að nú væri hann endanlega búinn. En nú bregð- ur sum sé svo við að nýjasta bókin hans er rif- in út og jafnvel harðvítugasti gagnrýnandi hans, Marcel-Reich Ranicki, maðurinn sem slátraði Btikktrommunni, lýst því yfir að hún hefði snort- ið taug. Þetta er eilítið skondið því Grass er á sömu slóðum og fyrr í sínu höfundarverki. Tengsl samtímans við söguhetjur fyrstu bóka hans voru líka á ferðinni í hinni úthrópuðu skáldsögu Rottan (1987) sem reyndar eldist fremur illa. Og sjálf frásagnaraðferð Krabbagangs, sú að- ferð að ganga eins og krabbi, alltaf á ská en komast þó áfram, er gamalreynd frásagnarað- ferð Grass. í öllum sínum verkum hefur hann ekki mikið hirt um að „komast beint að efninu" en stokkið fram og aftur í tíma og staldrað við hliðarsögur sem síðan hleypa fram atburða- rásinni. [ stuttu máli sagt: Ekkert í byggingu né stíl er nýtt eða framandi þeim sem lesið hafa hans fyrri verk. Sá almenni velvilji sem Þjóð- verjar sýna þessari bók virðist spretta af sjálfu efninu: Þeim hörmungum sem Þjóðverjar urðu sjálfir fyrir í seinna stríði en hefur alltaf verið ýtt til hliðar svo ekki gleymdist þeirra eigin sekt. Umræðan um sekt þýsku þjóðarinnar vegna atburða seinna stríðs hefur staðið yfir áratug- um saman og verið einn af hornsteinum lýð- ræðisþróunar þar í landi. Útrýming gyðinga og sígauna, ofsóknirá hendur kaþólikkum, homm- um og kommúnistum og síðan skipulögð rányrkja og ógnarstjórn í hernumdum löndum í Austur-Evrópu eru þungar byrðar að bera fyrir þjóð sem segja má með nokkrum rétti að hafi fundið upp samviskuna eins og við þekkjum hana nú; að minnsta kosti eigum við Saxanum Marteini Lúter mikið að þakka í þeim efnum. Um þessi voðaverk hafa Þjóðverjar fjallað afar vel, einkum í sagnfræðiritum, og útgáfa á slfku efni sem og umhirða gagna og skjala hefur ver- ið til fyrirmyndar. En ef benda ætti á listaverk sem öðru fremur fangaði anda þessara ára staðnæmdust líklegast flestir við Holocaust- þættina, Lista Schindlers, Dagbók Önnu Frank, bækur Primo Levis eða þá Sophie's Choice. Þjóðverjar sjálfir hafa með öðrum orðum aldrei náð að skapa verk sem gæti miðlað öðrum til- finningu fyrir veruleika þessarar fáránlegu uppákomu í mannkynssögunni þegar ein best menntaða og iðnvæddasta þjóð heims tók þá ákvörðun að fylgja snarvitlausum einræðisherra út í áður óheyrðan fordæðuskap. Siglingaleið Wilhelm Gustloff yfir Eystrasalt. Ljósrauðu örvarnar sýna framrás Rauða hersins. Leið flóttafólksins er sýnd með svörtum örvum.

x

Tímarit Máls og menningar

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit Máls og menningar
https://timarit.is/publication/1109

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.