Tímarit Máls og menningar - 01.02.2006, Page 24
Böðvar Guðmundsson
Má enn sjá þessar tvær ær troðnar með hálmi á þjóðminjasafni
Dana.
Skipin sigldu nú lengra norður í höf og vörpuðu akkerum úti fyrir
Reykjavík. Þá hafði enginn maður með konungablóð í æðum komið til
fslands síðan Hrærekur, en landsmönnum var enn í fersku minni kon-
ungdómur Jörundar og því sló felmtri á betri menn í Reykjavík er það
kvisaðist að konungborinn maður væri á herskipi úti á legunni. Bæði
pólití staðarins voru kvödd til að grípa manninn ef hann mundi útnefna
sig hæstráðanda til sjós og lands og leysa upp dönsk myndugheit. En
óþörf var öll sú fyrirhöfn, Friðrik prins fór með friði sem ávallt og var
auk þess í gæslu sinna varðhaldsmanna. Hann heilsaði hverjum manni
með kossi og þáði í nefið og drakk brennivín með búðadónum í Reykja-
vík og veitti þeim af áður óþekktri rausn.
Þá var forn saga íslands orðin kunn nokkrum lærdómsmönnum í
Norðurálfu. Kristján faðir hans var vel heima í henni sem öðrum vís-
indum og bað hann gæslumenn Friðriks áður en þeir sigldu að sýna
honum sögustaði, ríða með honum til Þingvalla og sækja heim búgarða
þeirra Snorra Sturlusonar og Gunnlaugs ormstungu. Því var strax hafist
handa að safna saman reiðskjótum handa Friðrik prinsi og hans gæslu-
mönnum. í þann tíð voru hestar á íslandi svo smáir að herðakambur
þeirra mundi í dag nema meðalmanni í nafla og þurfti lengi að leita um
Kjós og Gullbringu að þeim reiðskjótum er gætu borið prinsinn til
Þingvalla, hann var rúmar þrjár álnir á hæð og gildur. I Hafnarfirði
fundust að lokum tvær skjóttar hryssur að talið var að gætu borið prins-
inn, ásamt móálóttum graðhesti úr Selvogi. Gæslumenn hans voru
smávaxnari og því minni vandi að flytja þá. Hersingin öll reið til Þing-
valla á blíðum sólskinsdegi. Hrossin báru prinsinn sæmilega, en hann
var lítill hestamaður og fór því hægt, mátti og gæta sín í þröngum reið-
götum landsins að ekki drægjust fætur hans við jörð. Lítið gaman þótti
honum á Þingvöllum, rústir fáar og haugar engir að grafa í. Þá var á
Þingvöllum fátt til gamans, alþingi niður lagt og dómar, eins og Jónas
kvað:
Nú er þar þrotin þyrping tjalda,
þögult og dapurt hraunið kalda,
þótti þér ekki ísland þá
alþingi svipt með hrellda brá?
Að kvöldi þessa dags tók að rigna og gisti prinsinn og fylgdarlið hans í
Þingvallakirkju um nóttina, sem þá var eitt húsa staðarins að ekki lak.
Morguninn eftir var haldið um Kjósarskarð áleiðis til Borgarfjarðar.
22
TMM 2006 • 1