Tímarit Máls og menningar - 01.02.2006, Side 70
Jón Yngvi Jóhannsson
skoðunum. Og sagan er skrifuð af þeim krafti og bullandi hugmynda-
auðgi sem einkennir stíl Hallgríms, en hér er hún orðin tamdari, orða-
leikirnir færri og markvissari.
Yfirborðsmennska, siðleysi, öfgafrjálshyggja, félagsleg einangrun og
sjálfhelda neyslusamfélagsins. Það verður seint fullyrt að þær skáldsög-
ur sem hér hefur verið fjallað um reyni ekki að takast á við samtíma
sinn, lýsa honum, greina hann og gagnrýna. Og á stundum að minnsta
kosti taka þær einmitt þennan vanda til umræðu og veita þeirri kreppu
sem slík gagnrýni getur lent í inn í textann sjálfan.
Við getum auðvitað kosið að líta svo á að þetta hafi algerlega mistekist
og haldið áfram að tala um það að bókmenntir hafi engan slagkraft í
umræðunni. En hitt væri líka reynandi að velta fyrir sér hvað þessar
bækur segja um íslenskt samfélag, og um þá sem reyna að halda þar uppi
gagnrýninni umræðu.
Þróun og samfella
Það má sem sagt greina í skáldsögum síðasta árs, líkt og áranna á undan,
ákveðna tilhneigingu höfunda til að takast á við samtímann í raunsæis-
legum skáldsögum. Og ef við bætum hér við nokkrum þeirra glæpa-
sagna sem komu út fyrir jólin og einkennast af sama vilja til að fjalla um
samfélagslegan veruleika á gagnrýninn hátt erum við komin með nokk-
uð stóran hluta íslenskra skáldsagna.
En þetta er auðvitað ekki algilt; fjöldi skáldsagna kom út fyrir jólin sem
falla ekki að þessari hneigð. Meðal þeirra eru verk eftir nokkra af bestu
höfundum okkar sem sendu frá sér skáldsögur eða smásagnasöfn þar sem
þeir vinna áfram með þemu sem lesendur þekkja úr fyrri verkum þeirra.
Höfuðlausn Ólafs Gunnarssonar er söguleg skáldsaga þar sem meðal
annars er sagt frá merkilegum atburði í íslenskri menningarsögu, þegar
fyrsta alvöru kvikmyndin var tekin á fslandi. Þetta var kvikmynd Gunn-
ars Sommerfelt eftir Sögu Borgarættarinnar eftir Gunnar Gunnarsson.
Sagan er sögð frá sjónarhóli eins af aðstoðarmönnum hópsins, leigubíl-
stjórans Jakobs Ólafssonar sem verður einkabílstjóri leikstjórans og fær
auk þess vinnu við leikmunadeild myndarinnar. í sögunni bregður fyrir
ýmsum sögufrægum mönnum, auk Gunnars Gunnarssonar og Somer-
felts, til dæmis þeim Thor Jensen og Knut Hamsun og ekki síst listmál-
aranum Muggi sem lék aðalhlutverkið í myndinni.
Ástæða þess að Höfuðlausn er vel heppnuð sem söguleg skáldsaga er
sú klassíska aðferð sem Ólafur beitir. I forgrunni er fólk sem er auka-
leikarar eða jafnvel statistar í hinni stóru sögu. Hinir frægu verða á hinn
68
TMM 2006 ■ 1